Hámark á tollfrjálsum varningi hækkað

Leifsstöð.
Leifsstöð. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald og tollalögum að hámark á tollfrelsi varnings sem ferðamenn flytja til landsins hækki úr 65.000 kr. í 88.000 kr. og að hámark á verðmæti einstaks hlutar verði afnumið. Þá er lagt til að tollur á reiðhjól verði felldur niður.

Hvað fyrri breytingatillöguna varðar er á það bent í nefndarálitinu að fjárhæðarviðmiðuninni hafi ekki verið breytt síðan hún var lögfest í lok árs 2008. „Með hliðsjón af þróun gengis frá því ári telur meiri hlutinn að tímabært sé að hækka fjárhæðarmörkin auk þess sem meiri hlutinn telur ekki þörf á að hafa sérstök mörk fyrir verðmæti einstaks hlutar.“

Þá segir um niðurfellingu tolla á reiðhjól, að tillagan sé lögð fram með hliðsjón af þeirri stefnu að skapa aukið samræmi. „Er þetta gert með það að markmiði að efla vistvænar samgöngur og til samræmis við tillögur í skýrslu nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins frá september 2011, sem og nýlegar niðurfellingar, endurgreiðslur og lækkanir á opinberum gjöldum á vistvænar bifreiðar.“

Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti ætti sú aðgerð að fella niður tolla á reiðhjól að kosta ríkið um 30 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina