Annþór og Börkur fá 6 og 7 ára dóm

 Annþór Kristján Karlsson var í dag dæmdur í 7 ára fangelsi og Börkur Birgisson í 6 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness, fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir, ólögmæta nauðung, frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar.

Átta aðrir menn sem ákærðir voru fyrir aðild að málunum voru dæmdir í 15 mánaða til 2 ára fangelsi. Einn þeirra er að auki sviptur ökuréttindum ævilangt. Verjendur fá allir 4 vikna frest til ákvörðunar um áfrýjun. Aðeins einn sakborninga var viðstaddur dómsuppkvaðninguna í morgun en Börkur og Annþór voru báðir fjarverandi.

Annþór og Börkur neituðu báðir sök við aðalmeðferð málsins, sem stóð í fjóra daga og fór fram í nóvember. Þeir voru ásamt hinum mönnunum ákærðir fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir, ólögmæta nauðung, frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar. Saksóknari krafðist þess að Annþór yrði dæmdur í 8 ára fangelsi og Börkur í 7 ára fangelsi. Þá fór hann fram á tveggja til þriggja og hálfs árs fangelsi yfir flestum öðrum í málinu.

Fram kom í máli lögreglumanns fyrir dóminum í nóvember að vitnum, sakborningum og fjölskyldum þeirra hafi verið hótað ofbeldi yrði framburði ekki breytt við aðalmeðferðina. Meðal annars hafi hótanir verið uppi um að beita barnsmóður eins sakbornings ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert