Sakfellt í öllum ákæruliðum

Frá Héraðsdómi Reykjaness á meðan aðalmeðferð málsins stóð.
Frá Héraðsdómi Reykjaness á meðan aðalmeðferð málsins stóð. mbl.is/Júlíus

Tímenningarnir sem sakfelldir voru fyrir aðild sína að þremur líkamsárásarmálum í Héraðsdómi Reykjaness í dag fá fjögurra vikna frest til að ákveða hvort áfrýjað verður. Sakfellt var í öllum ákæruliðum gegn þeim Annþóri Karlssyni og Berki Birgissyni.

Að auki voru þeir Smári Valgeirsson og Jón Ólafur Róbertsson dæmdir í tveggja ára fangelsi fyrir aðild sína að málunum. Aðrir hlutu styttri dóma, eða 15 til 18 mánuði.

Níu réðust til atlögu í heimahús

Ákært var fyrir þrjár sérstaklega hættulegar líkamsárásir, ólögmæta nauðung, frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar. Í fyrsta ákærulið eru Börkur og Annþór, ásamt sjö öðrum, sakfelldir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás að kvöldi 4. janúar 2012, þegar þeir réðust inn í íbúð í Mosfellsbæ vopnaðir m.a. sleggju, golfkylfu, hafnaboltakylfu.

Húsráðandi hlaut m.a. þverbrot í gegnum sköflunginn á hægri fótlegg og 6 cm opinn skurð á sköflungnum, brot á hægri hnéskel og bólgu í kringum hnéð, fjölda yfirborðsáverka á fótlegg, úlnliðum og handleggjum. Þrír aðrir menn sem staddir voru í íbúðinni fengu m.a. höggáverka á höfuð og skurði og mar á útlimi.

Í niðurstöðu dómsins segir að hafið sé yfir allan vafa að ákærðu hafi sammælst um að fara í Mosfellsbæ í þeim tilgangi að ráðast á húsráðanda og að Börkur og Annþór hafi verið með í þeirri ákvörðun. Tilviljun hafi ráðið því hver gerði hvað. Mikið ósamræmi var í framburði ákærðu fyrir lögreglu annars vegar og dóminum hins vegar um aðild Barkar. Dómarar telja þann framburð ótrúverðugan að Börkur hafi aðeins verið að verja sig og að ákærðu hafi samræmt framburð sinn eftir á. Eru allir ákærðu sakfelldir fyrir aðild sína í fyrsta ákærulið.

Ótrúverðugur framburður Annþórs og Barkar

Í öðrum ákærulið eru Annþór og Börkur, ásamt tveimur öðrum sakfelldir fyrir frelsissviptingu og sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart tveimur mönnum í íbúð í Grafarvogi í desember 2011. Í niðurstöðu dómsins segir að framburður Annþórs og Barkar sé í öllum atriðum ótrúverðugur og stangist á við framburð annarra sem og símagögn. Fullsannað þótti að Annþór og Börkur hefðu sammælst um og skipulagt árásina.

Annar maðurinn var m.a. laminn með spýtu og þurfti hann að leita á slysadeild vegna höfuðáverka.  Migið var yfir hinn og stigið á hendur hans. Mönnunum var hótað lífláti og frekari líkamsmeiðingum, s.s. brotnum hnéskeljum, greiddu þeir ekki tiltekna fjárhæð.

Þriðja líkamsárásin var gerð á sólbaðsstofu sem Annþór rak, í október 2011. Tveir ungir menn, sem voru í skuld við Annþór, voru leiddir á hans fund á sólbaðsstofuna í Hafnarfirði þar sem kom til átaka. Fyrir dóminum drógu tveir mannanna framburð sinn til baka en dómurinn taldi sannað, með frásögn vitnanna hjá lögreglu, að Annþór hefði gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart mönnunum tveimur.

Langur brotaferill beggja

Sem fyrir segir hlaut Annþór 7 ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness í morgun, en Börkur var dæmdur í 6 ára fangelsi. Við ákvörðun refsingarinnar er litið til langs brotaferils þeirra beggja. Annþóri, sem er 36 ára, hefur fyrir utan þessi brot verið fjórum sinnum áður gerð refsing fyrir líkamsárásir, fimm sinnum fyrir þjófnað og nytjastuld og tvisvar fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot. Hann hefur auk þess þrisvar rofið skilorðsdóma og þrisvar rofið reynslulausn.

Brotin sem Annþór var dæmdur fyrir í morgun framdi hann einmitt á reynslulausn. Í dóminum segir að hann eigi sér engar málsbætur og að fyrri dómar virðist engin varnaðaráhrif hafa. Engin skilyrði eru að mati dómsins til að skilorðsbinda refsinguna sem hann er nú dæmdur til.

Börkur, sem er 33 ára, hefur 7 sinnum hlotið refsidóma frá árinu 1997, en þá var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir hótun og stórfellda líkamsárás. Hann hefur síðan ítrekað verið dæmdur fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir auk tilraunar til manndráps, en fyrir hana hlaut hann rúmlega 7 ára fangelsisdóm árið 2005. Dómurinn segir hann engar málsbætur eiga sér. 

Sakborningar voru ekki viðstaddir þegar dómur var upp kveðinn í …
Sakborningar voru ekki viðstaddir þegar dómur var upp kveðinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert