25-30 þúsund tonn af dauðri síld

Um helgina var gríðarlegt magn af síld í öllum fjörum …
Um helgina var gríðarlegt magn af síld í öllum fjörum við Kolgrafarfjörð. Ljósmynd/Róbert Arnar Stefánsson

Þær niðurstöður sem fengust úr stuttri rannsókn Hafrannsóknastofnunarinnar síðastliðinn þriðjudag sýna að meginþorri þeirrar síldar sem var í innanverðum Kolgrafafirði í síðustu viku sé nú kominn í utanverðan fjörðinn. Bráðabirgðaniðurstöður benda til að nálægt 10% þeirrar síldar sem var í innanverðum firðinum hafi drepist.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafró.

Súrefnismettun í firðinum mældist mjög lág, lægri en áður hefur mælst í sjó við landið. Líklegt er að þessi lækkun á styrk súrefnis stafi meðal annars af öndun síldar sem var í miklu magni innan brúar dagana áður en mælingarnar voru gerðar. Enda þótt vitað sé að síld að vetrarlagi þoli lágan styrk súrefnis benda þessar niðurstöður til þess að helsta orsök síldardauðans á undanförnum dögum hafi verið súrefnisskortur. Er þó ekki hægt að útiloka að samspil hans við aðra þætti, svo sem lágt hitastig, hafi einnig haft áhrif.

Enda þótt síldin sé nú komin af því svæði þar sem styrkur súrefnis var mjög lágur er mögulegt að það ástand vari áfram vegna rotnunar á dauðum fiski. Rotnunin getur viðhaldið lágu súrefnismagni í firðinum og því gæti áframhaldandi hætta verið til staðar á næstu mánuðum og misserum fari fiskur inn á það svæði í miklu magni.

Hafrannsóknastofnunin mun áfram fylgjast náið með síldinni á svæðinu og umhverfisaðstæðum í firðinum.

Eins og kunnugt er hefur töluvert fundist af dauðri síld í fjörum í Kolgrafafirði á undanförnum dögum. Hafrannsóknastofnunin fór til mælinga í firðinum á þriðjudaginn 18. desember þar sem markmið rannsóknanna var að reyna að varpa ljósi á orsakir síldardauðans og jafnframt að leggja mat á umfang og magn dauðrar síldar í firðinum. Farið var með bátnum Bolla SH til mælinganna.

Í rannsóknunum var ástand sjávarins kannað (hiti, selta, súrefni), mælingar gerðar á magni síldar í firðinum auk þess sem botn fjarðarins var skoðaður með neðansjávarmyndavélum. Þá voru fjörur gengnar og mat lagt á magn dauðrar síldar þar. Nú er frumgreiningu gagnanna lokið og fyrir liggja fyrstu niðurstöður.

Umhverfismælingar

Tekin voru þversnið yfir fjörðinn, bæði innan og utan brúar. Á ytra svæðinu var hitinn á bilinu 2,7°C -3,4°C og seltan var á bilinu 34,3- 34,7 en utan hennar. Innan brúar var hitinn að jafnaði um 0,5°C lægri og seltan um 0,5 lægri. Innan brúar var vart við kaldari og seltuminni sjó í yfirborði og náði hann niður á um eins metra dýpi.

Súrefnismagn í sjónum var jafnframt mælt bæði innan fjarðar og utan og niðurstöður þeirra mælinga sýna að súrefnisstyrkur í innanverðum firðinum var mjög lágur eða innan við 2 ml/l.

Utan við brú var styrkurinn jafnframt lágur í yfirborði, en við botn var hann um 6 ml/l (95% mettun). Mikið útfall var þegar sýnin voru tekin utan brúar.

Magn lifandi síldar

Bergmálsmælingar á lifandi síld sýna að umtalsvert magn var af síld utan við brúna í Kolgrafafirði og virðist sem síldin hafi að mestu fært sig af svæðinu innan við brú. Alls mældust um 10 þúsund tonn innan brúar en utan við brú í firðinum mældust rúmlega 250 þúsund tonn.

Magn dauðrar síldar

Svæðið innan brúar var kannað með neðansjávarmyndavél og alls var safnað tæpum fjórum klukkustundum af myndefni sem unnið verður nánar úr á næstu vikum. Tekið var snið frá botni fjarðarins og út sem dýptarsviðið var á bilinu 10-42 metrar. Dauð síld sást á öllu svæðinu sem kannað var. Enda þótt úrvinnslu þessa myndefnis sem safnað var sé ekki lokið er ljóst að umtalsvert magn af dauðri síld er um allan fjörðinn. Mest magn var þó þar sem dýpið var mest. Gróft mat bendir til þess að fjöldinn gæti verið á bilinu 7-10 fiskar á fermetra. Stærð fjarðarins innan við brúna er um 10 ferkílómetrar og því gæti magn dauðrar síldar á svæðinu verið 25-30 þúsund tonn, en það mat er þó háð mikilli óvissu.

Fuglarnir hafa náð að kroppa vel í þessa síld.
Fuglarnir hafa náð að kroppa vel í þessa síld.
mbl.is

Bloggað um fréttina