„Margt óskýrt og flókið í tillögunum“

Ólafur Ragnar Grímsson gagnrýndi drög að nýrri stjórnarskrá í nýársávarpi …
Ólafur Ragnar Grímsson gagnrýndi drög að nýrri stjórnarskrá í nýársávarpi sínu. Sigurgeir Sigurðsson

„Því er miður að nú um áramótin blasir við að umræðan um nýja stjórnarskrá er á ýmsan hátt komin í öngstræti. Í stað samstöðu um sáttmálann geisa djúpstæðar deilur og virtir fræðimenn við háskóla landsins hafa áréttað að margt sé óskýrt og flókið í tillögunum“. Svo kemst forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson að orði um drög að nýrri stjórnarskrá í nýársávarpi sínu.

Sagði hann að margir einstaklingar úr fræðasamfélaginu hafi gert efnisríkar athugasemdir við fjölmargar greinar tillagnanna, en að áhugamenn um stjórnarskrárbreytingar hafi sumir gert lítið úr þeim. Spurði Ólafur í framhaldinu hvort helsti lærdómur hrunsins hafi ekki verið að taka meira „mark á þeim sem í krafti þekkingar vara við hættunum handan við hornið“.

Lítil umræða um nýtt stjórnkerfi

Ítrekaði Ólafur nauðsyn þess að ný stjórnarskrá skyldi byggð á sáttmála þjóðarinnar þar sem ekki væri aðeins horf á alræði sífellt nýrra meirihluta sem „koll af kolli kappkosta að ráða för“, heldur sagði hann gæði lýðræðisins birtast í því að virða rök og rétt minnihlutans. 

Gagnrýndi hann að lítil sem engin umræða hafi farið fram um hið nýja stjórnkerfi sem tillögurnar fela í sér, meðal annars um samspil Alþingis, ríkisstjórnar og forseta. Það sé þrátt fyrir að ætlunin sé að leggja niður ríkisráðið og þar með koma í veg fyrir samráðsvettvang þjóðhöfðingja og ríkisstjórnar þegar þörfin væri brýn. Sagði Ólafur að með nýju tillögunum yrði einstaklingum auðveldað að ná þingsetu í krafti fjölmiðlafrægðar, völd flokka dregin saman og hlutur landsbyggðar rýrður mjög. 

Agavald forsætisráðherra

Þá myndu formenn stjórnmálaflokka ekki lengur gegna sérstöku hlutverki við myndun ríkisstjórna, heldur myndi forsetinn stýra för. Forsætisráðherra fengi svo agavald yfir ráðherrum annarra flokka og gæti einn rekið þá alla. Segir hann að svo virðist sem tillögumenn hafi talið „að helsti galli íslenskrar stjórnskipunar á undanförnum áratugum hafi verið að forsætisráðherrar – og reyndar forsetinn líka – hefðu þurft enn meiri völd.“

Minnti hann á að í atkvæðagreiðslunni í október hefði ekki verið spurt um þessa þætti og því þyrfti skýr vilji meirihluta landsmanna að koma fram áður en ákvörðun um málið yrði tekin. 

Ólafur segir að reyndar megi einnig finna góðar hugmyndir í tillögunum og nefnir í því samhengi „ný ákvæði um rétt þjóðarinnar til að krefjast atkvæðagreiðslu um hin stærstu mál, ótvíræð þjóðareign á auðlindum, aukið sjálfstæði dómstóla og víðtækari mannréttindi.“ Breytingarnar búi hins vegar til alveg nýtt stjórnarkerfi sem ætti sér engan líka á Vesturlöndum.

Þurfum að hlusta á fræðimenn

Varaði hann við röddum sem ekki hafi viljað hlusta á háskólasamfélagið, sem Ólafur sagði að hafi komið með athugasemdir studdar tilvísunum í rannsóknir hér heima og á alþjóðavettvangi vísindanna. Sagði hann að „slíkur málflutningur minnir því miður á skollaeyrun sem ýmsir skella við rannsóknum á hlýnun jarðar“, en að hvort  tveggja sæmi lítt stefnumótun nýrrar aldar sem þarf að vera byggð á traustum grunni þekkingar.

Sú stjórnarskrá sem er í gildi í dag gerði Íslendingum kleift að bregðast við hruninu á lýðræðislegri hátt en öðrum þjóðum að mati Ólafs. Segir hann að „þótt árin frá hruni bankanna hafi verið erfið á margan veg og eðlilegt að oft væri tekist á um stefnur og gerðir, þarf stjórnskipun nýrrar aldar að hvíla á víðtækri og varanlegri sátt.“ Ella sé farið úr öskunni í eldinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert