Ísland er tifandi tímasprengja

Ísland er það sem heimsbyggðin á að óttast á nýju ári, ef marka má erlenda heimildarþætti þar sem fjallað er um eldvirkni á Íslandi. Í umfjöllun á vef New York Times segir að svo virðist sem að Ísland geti sprungið í loft upp á hverri sekúndu því hér á landi séu svo mörg virk eldfjöll.

„Nei, Ísland er ekki, að því er við best vitum, að vinna að þróun kjarnorku- eða efnavopna. Svo virðist sem að það geti sprungið í loft upp á hverri sekúndu því þar eru mörg eldfjöll og hefur gert það í gegnum söguna,“ segir í upphafi greinar sem Neil Genzlinger skrifar á vef New York Times í gær.

Hann segir að Public Broadcasting Service (PBS) sýni báða þættina í kvöld í Bandaríkjunum. Annar þeirra ber heitið Nova - Doomsday Volcanoes og hinn þátturinn er hluti af þáttaröð í sex hlutum sem heitir Life on Fire. Genzlinger segir að þættirnir geri mönnum ljóst að Ísland sé suðupottur sem er við það að fara fjandans til og að „Íslendingar eru ekki þeir einu sem eiga að hafa áhyggjur af þessu.“

Genzlinger segir að uppbygging þáttanna sé með svipuðu sniði og eflaust verði fólk orðið nægilega óttaslegið eftir að hafa aðeins horft á annan þeirra.

„Landið er svo óheppið að vera ofan á svæði þar sem tveimur flekum kemur ekki vel saman, sem leiðir til þess að þar eru mörg eldfjöll af mismunandi gerðum (já, það eru til mismunandi gerðir af eldfjöllum) sem gjósa óþægilega oft,“ skrifar Genzlinger.

Þá segir hann að í þáttunum byrji menn á að rifja upp árið 2010 þegar eldgos hófst í Eyjafjallajökli sem leiddi til mikillar röskunar á flugsamgöngum. Það hafði mikil áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki og aðra þætti efnahagslífsins. Í þáttunum er hins vegar tekið fram að gosið í Eyjafjallajökli hafi verið tiltölulega lítið og aðeins eitt af mörgum sem hafa orðið undanförnum öldum.

Breski leikarinn Jeremy Irons er sögumaður í Life on Fire. Hann segir frá því að í jarðsögulegu tilliti sé Ísland enn mjög ungt land sem sé enn í mótun. „Það er aðeins þegar eldgos hefur áhrif um allan heim, þegar við hin lærum eitthvað sem Íslendingar þekkja mjög vel: Þessi eldfjöll hafa ekki lokið sér af,“ segir Irons í þættinum.

Í þáttunum er rætt við eldfjallafræðinga sem hafa rannsakað íslensk eldfjöll og þeir reyna að spá fyrir um framtíðina. Ein þeirra er Hazel Rymer. Í þættinum Life on Fire segir hún að það sé erfitt að draga ályktanir varðandi atburði sem gerast á jarðsögulegum tíma sem byggir aðeins á vísindarannsóknum sem teygja sig aðeins nokkra áratugi aftur í tímann.

„Til að skilja það hvernig eldfjöll virka, þá verður þú að stunda mælingar eins lengi og þú mögulega getur,“ segir hún. „Mannsævi er ekkert samanburði við líftíma eldfjalla,“ bætir hún við.

Bent er á að menn geti skoðað þá atburði sem hafi átt sér stað en það sé ekkert sérlega hughreystandi. Vísað er til þess þegar Skaftáreldar hófust með eldgosi úr Lakagígum á Síðuafrétti árið 1783.Sem er talið eitt mesta eldgos á Íslandi.

Það leiddi til þess að langvarndi hungursneyðar og á Íslandi lést um fimmtungur þjóðarinnar. Talið er að a.m.k. ein milljón hafi látist í heiminum sem rekja megi til eldgossins á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert