Barátta Blævar á Fox News

Björk Eiðsdóttir og dóttir hennar, Blær Bjarkardóttir.
Björk Eiðsdóttir og dóttir hennar, Blær Bjarkardóttir. Ljósmyndari/Óskar Páll Elfarsson

Bandaríska fréttastöðin Fox News fjallar um baráttu 15 ára gamallar stúlku sem vill fá ógiltan úrskurð mannanafnanefndar um að hún megi ekki heita Blær. Blær er skráð sem „Stúlka Bjarkardóttir“ í þjóðskrá.

Fox News segir frá því að á Íslandi gildi sérstakar reglur um mannanöfn. Þau nöfn sem heimilt er að gefa barni eru á Mannanafnaskrá.

Í júní sl. var greint frá því á mbl.is að Blær hefði höfðað mál gegn Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra til að fá ógiltan úrskurð mannanafnanefndar. Þar kom fram að Blæ hefði verið gefið nafnið við skírnarathöfn en eftir skírnina uppgötvaði presturinn að nafnið var ekki á mannanafnaskrá.

Í frétt Fox News er rætt við Björk Eiðsdóttur, sem er móðir Blævar.

„Ég hafði ekki hugmynd um að nafnið væri ekki á listanum, hinum fræga nafnalista sem þú getur valið af,“ segir Björk í samtali við Fox. Hún bætir því við að hún þekki aðra konu sem heiti Blær og það hafi verið samþykkt árið 1973.

Björk segist vera reiðubúin að fara með málið alla leið til Hæstaréttar Íslands. Í frétt Fox News er talað um að von sé á niðurstöðu í dómsmálinu 25. janúar nk. en fram kemur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur að aðalmeðferð fari fram í málinu 21. janúar nk. Björk segir að Blær sé elski nafnið sitt.

Mannanafnanefnd hafnaði kvenmannsnafninu Blær nú þar sem það er skráð í mannanafnaskrá sem karlmannsnafn.

Í fréttinni er einnig rætt við Ágústu Þorbergsdóttur, sem er formaður mannanafnanefndar. Hún segir að lögin séu skýr og í flestum tilvikum sé um einfalt já eða nei að ræða. Önnur mál geti verið flóknari.

„Það sem einum þykir vera fallegt, getur öðrum þótt ljótt,“ segir Ágústa. Hún tekur nafnið Satanía sem dæmi um óviðunandi nafn, því það sé of líkt Satan. 

Þá er fjallað um það hvernig listamaðurinn Birgir Örn Thoroddsen sótti um að fá að breyta nafni sínu í Curver, sem hann hefur notað frá því hann var unglingur. Hann segist hafa vitað að mannanafnanefnd myndi hafna umsókninni.

„Prince veitti mér innblástur sem breytti nafninu í Listamaðurinn sem var áður þekktur sem Prince og Puff Daddy sem breytti sínu nafni í P. Diddy og svo í Diddy án, að því er virðist, mikillar pælingar eða gagnrýni,“ segir Birgir. „Ég sótti um hjá nefndinni, en að sjálfsögðu fékk ég að heyra nei, eins og ég bjóst við,“ segir hann. 

Hann segist skilja að til séu reglur sem komi í veg fyrir að börn sé skírð eða nefnd Hundaskítur, en það sé undarlegt að fullorðinn einstaklingur geti ekki breytt sínu nafni í eitthvað sem hann vilji heita.

„Það er búið að leyfa svo mikið af undarlegum nöfnum, sem er svo svekkjandi af því að Blær er fullkomlega íslenskt nafn,“ segir Björk.

„Það ætti að vera almenn mannréttindi að fá að skíra barnið þitt það sem þú vilt, sérstaklega ef það skaðar ekki barnið þitt á nokkurn hátt,“ segir Björk að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert