Gagnrýnir gagnrýni á Þjóðkirkjuna

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax

„Hvernig er hægt að vera á móti því að kirkjan taki frumkvæði, láti gott af sér leiða og safni fyrir góðu málefni?“ spyr Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vegna hugmynda Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, að Þjóðkirkjan beiti sér fyrir söfnun til tækjakaupa fyrir Landspítalann.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, hefur gagnrýnt hugmyndina harðlega meðal annars á þeim forsendum að slíkt sé ekki hlutverk Þjóðkirkjan og að kirkjan sé sjálf rekin fyrir ríkisfé og hafi óskað eftir og fengið aukafjárframlag vegna meints fjárskorts hennar.

Bjarni bendir á það á Facebook-síðu sinni í dag að um fjárhagsleg samskipti ríkisins og Þjóðkirkjunnar gildi samningar og lög sem meðal annars byggist á þeim gerningi að ríkið hafi tekið yfir allar kirkjujarðir á sínum tíma gegn ákveðnum skuldbindingum.

„Kirkjan hefur undanfarin ár samþykkt að taka á sig skerðingar á kirkjujarðasamkomulaginu og á sóknargjöldum umfram það sem stofnunum hefur verið gert að sæta. Það er á engan hátt hægt að ræða um kirkjuna eins og hverja aðra stofnun sem ríkið rekur.“

mbl.is