Finnur til hungurs á suðurskautinu

Vilborg Arna Gissurardóttir
Vilborg Arna Gissurardóttir

Íslenski suðurpólsfarinn Vilborg Arna Gissurardóttir kveðst stríða við hungurtilfinningu þegar hún leggur til atlögu við síðustu kílómetrana að lokatakmarki sínu. Hún er nú komin yfir á 88. breiddargráðu og á eftir að ganga um 220 km til að ná á pólinn, eða sem nemur vegalengdinni frá Akureyri til Vopnafjarðar. 

Hækkunin framundan hjá henni nemur 250 metrum og því á brattann að sækja næstu vikuna, en það er tíminn sem áætlað er að muni taka hana að ná takmarkinu miðað við yfirferð hennar síðustu daga. Hún hefur nú gengið í 47 daga.

Ætlar að fá sendan mat sem hún skildi eftir

Í dagbókarfærslu á netinu, sem Vilborg heldur úti, segir í gær: „Hæ hó. Sit hérna í tjaldinu og fagna áfangasigri, skíðaði á 88. breiddargráðu rétt fyrir lok dags. Þetta var nokkuð strembinn dagur þar sem það blés svolítið og kuldinn eftir því. Auk þess voru skaflarnir á sínum stað en þetta tekur enda og eftir morgundaginn á það heldur að skána og um miðja gráðuna á færið að vera orðið ágætt. Ég er orðin matarlítil og ætla að fá sendan matinn sem ég skildi eftir í búðunum þar sem ég verð ögn lengur en ég vonaði. Matarlystin er sko í góðu lagi á þessum bænum.“ [Íslenskir stafir í færslunni eru blaðamanns.]

Í tilkynningu sem kom um gönguna í dag segir að aðstæður til pólgöngu hafi verið slæmar síðustu daga, mikill kuldi og hvassviðri sem myndað hafi rifskafla sem vanir pólfarar segjast vart muna eftir áður.

Eykst þróttur eftir því sem lokatakmarkið nálgast

Vilborg, sem þarf að hylja allt andlit sitt með grímu, segir þessar aðstæður mikla áskorun fyrir sig og þrátt fyrir að hún sé lítillega kalin á lærum hefur henni aukist þróttur eftir því sem lokatakmarkið nálgast. Hún segist þó vera sísvöng enda er maturinn sem hún hefur haft meðferðis á þrotum.

Meðan á göngunni stendur safnar Vilborg Arna áheitum til styrktar Lífi styrktarfélagi kvennadeildar Landspítalans – og geta menn sett sig í spor Vilborgar með því að heita á hana í síma 908-1515 (1500 kr) eða með frjálsum framlögum á vefsíðunni www.lifsspor.is þar sem dagbók af ferð hennar er að finna.

Vilborg Arna Gissurardóttir
Vilborg Arna Gissurardóttir mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert