Jón fer ekki í framboð fyrir VG

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi, mun ekki gefa kost á sér á lista flokksins í komandi Alþingiskosningum. Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með hvernig haldið hefur verið á mörgum stefnumálum flokksins.

Þetta segir Jón í færslu á bloggsíðu sinni.

Þar skrifar Jón að VG hafi fengið yfirburða kosningu í Norðvesturkjördæmi í síðustu Alþingiskosningum og þrjá þingmenn. „Enginn vafi er á að einörð stefna og áherslur flokksins og okkar sem skipuðum þá forystusveit, átti hljómgrunn og stuðning  meðal íbúa  kjördæmisins og raunar langt út fyrir mörk þess. Kjörorðin  -vegur til framtíðar- vörðuð trausti og trúnaði voru aðalsmerki Vg í þeirri kosningabaráttu og eftir þeim gildum hef ég starfað,“ skrifar Jón.

„Ég hef setið á Alþingi sem fulltrúi VG frá því flokkurinn fékk fyrst kjörna menn á þing 1999 og átt virkan hlut í að móta grunnstefnu flokksins og áherslur ásamt mörgu öðru góðu fólki. Það hafa orðið mér vonbrigði hvernig haldið hefur verið á mörgum stefnumálum VG síðustu misseri og vikið frá þeim gildum sem hann var stofnaður um.“

„Afstaða mín og skoðanir í þeim málum eru öllum kunnar. Ég nefni hér umsóknina um aðild að ESB þvert á grunnstefnu flokksins og gefin kosningaloforð, niðurskurð til velferðarmála, ásamt því hvernig hert hefur verið með margvíslegum hætti að íbúum á landsbyggðinni.“

„Þótt ég hafi nú ákveðið að gefa ekki kost á mér til framboðs fyrir VG við næstu alþingiskosningar mun ég áfram leggja mitt af mörkum  og berjast fyrir þær  hugsjónir og grunngildi sem ég hef verið talsmaður fyrir og starfað eftir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina