Karl Vignir í tveggja vikna varðhald

Karl Vignir Þorsteinsson.
Karl Vignir Þorsteinsson. Skjáskot/Kastljós

Karl Vignir Þorsteinsson var nú undir kvöld úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Karl Vignir unir úrskurðinum og áfrýjar ekki, eftir því sem fram kemur í tilkynningu.

Við yfirheyrslur yfir Karli Vigni kviknuðu grunsemdir um að hann hefði framið nýrri brot en áður hafa komið fram, eins og mbl.is sagði frá fyrr í dag. Þá sagði Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, jafnframt að lögreglan ætti von á því að fá inn nýjar kærur eða tilkynningar frá þolendum Karls Vignis vegna brota sem hugsanlega væru ekki fyrnd.

Hópuðust saman við heimili hans

Karl Vignir hefur verið í haldi lögreglu síðan í gær þegar hann var færður til yfirheyrslu og gisti hann í fangaklefa síðustu nótt. Samkvæmt heimildum mbl.is urðu nágrannar Karls Vignis, sem býr í fjölbýlishúsi í Hlíðunum, varir við einhvern mannsöfnuð í garðinum við húsið í nótt.

Munu þar hafa verið samankomnir ungir piltar sem ræddu um það sín á milli hvort þeir gætu komist inn í húsið. Íbúar hringdu á lögreglu og létu vita en ekki kom til neinna afskipta þar sem piltarnir höfðu sig á brott þegar þeir urðu varir við mannaferðir. Karl Vignir var ekki heima í nótt og verður ekki næstu vikur hið minnsta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert