Skammarleg umgengni í Heiðmörk

Mikið vantar á að að allir höfuðborgarbúar gangi um Heiðmörk þannig að sómi sé að. Þar hafa menn hent rusli, kveikt í bílum, látið hunda ganga lausa við brunnsvæði, stundað utanvegaakstur o.s.frv. Sumir virðast ekki leiða hugann að því að Heiðmörk er vatnsforðabúr fyrir höfuðborgarsvæðið. 

Höfuðborgarbúar hafa undanfarna áratugi ekki þurft að hafa áhyggjur af gæðum drykkjarvatnsins og líta á hreint vatn sem sjálfsagðan þátt í daglegu lífi. Svo virðist sem íbúar á svæðinu leiði sjaldan hugann að því hvort öryggi drykkjarvatns sé ógnað. Orkuveita Reykjavíkur segir mikilvægt að þeir sem marka stefnu og taka ákvarðanir um landnotkun geri sér grein fyrir mikilvægi hreins neysluvatns, þannig að koma megi í veg fyrir uppbyggingu sem ógnar vatnsvernd.

Í nýrri rannsókn sem Hrólfur Sigurðsson gerði við Háskóla Íslands kom fram að aðgerðir sem gripið hefur verið til á síðustu áratugum hafa orðið til þess að örverufræðileg gæði neysluvatns frá Orkuveitu Reykjavíkur hafa batnað til muna. Efni sem eru hættuleg heilsu manna hafa aldrei verið greind í neysluvatninu og hæsta mælda gildi á þungmálmum er aðeins 2,3% af hámarksgildi. Hins vegar leiddi rannsóknin í ljós að heildargerlafjöldi jókst með meiri fjarlægð frá uppsprettum.

Á árinu 2011 nam framleiðsla OR á drykkjarvatni í Heiðmörk um 21 milljón rúmmetra. Umfangsmeiri atvinnurekstri, þar á meðal matvælavinnslu og drykkjarvöruframleiðendum, er selt vatn eftir mæli. Nam sú sala á árinu 2011 um 10 milljónum rúmmetra eða tæpum helmingi framleiðslu OR. Reykjavík er stærsti útgerðarbær landsins og í borginni eru um 800 fyrirtæki sem eru undir eftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Að viðbættum þeim fyrirtækjum sem heyra undir aðra eftirlitsaðila, þ.á m. Matvælastofnun, er fjöldi matvælafyrirtækja talinn vera um 1.400. Ótalin eru fyrirtæki í nágrannasveitarfélögum. Orkuveitan segir að hagsmunir fyrrnefndra aðila, auk íbúanna 130.000, af því að hafa aðgang að neysluvatni í háum gæðaflokki, sem ekki þarf að meðhöndla með tilheyrandi kostnaði, séu því miklir.

Fjöldi manns fer um Heiðmörk á hverjum degi til að njóta náttúrunnar. Reykjavíkurborg hefur viljað leggja áherslu á útivistargildi svæðisins. Deiliskipulagstillaga sem Reykjavíkurborg lét vinna um Heiðmörk ber einmitt fyrirsögnina „Heiðmörk – deiliskipulag útivistarsvæðis“.

Þær myndir sem fylgja þessar frétt sýna að mikið vantar á að allir sem leggja leið sína í Heiðmörk geri sér grein fyrir því að þeir eru á vatnsverndarsvæði og að þeir sem fara um slíkt svæði verða að sýna sérstaka varúð í umgengni við náttúruna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert