Vilborg: „Stórkostleg tilfinning“

Vilborg Arna.
Vilborg Arna.

„Þetta var stórkostleg tilfinning. Um leið og það er gott að þetta skuli vera búið finnur maður á sama tíma fyrir söknuði,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir í samtali við mbl.is en hún komst á suðurpólinn í gærkvöldi. Vilborg gekk alls 1.140 kílómetra á 60 dögum.

„Þetta var mjög sérstök upplifun. Þetta er í senn einfalt og flókið líf, hætturnar eru margar og margt sem þarf að hafa í huga. Það er gríðarleg vinna sem fylgir því að vera í svona leiðangri, ég er búin að vera að frá sex á morgnana til tíu á kvöldin í 60 daga. Að ná markmiðinu, sem er langt frá því að vera sjálfsagt, stendur upp úr,“ segir Vilborg að aflokinni ferð sinni á suðurpólinn. 

En hvað stendur upp úr núna þegar Vilborg er komin á áfangastað? „Að ná markmiðinu, komast á leiðarenda, eftir alla þá gríðarlega miklu vinnu sem fylgir því að undirbúa leiðangur af þessu tagi.“ Vilborg segist aldrei hafa hugleitt að gefast upp á leiðinni. „Það komu alveg ótrúlega erfiðir dagar. Ég var hins vegar búin að undirbúa mig vel andlega fyrir ferðalagið og það er lykillinn að því að ná árangri í svona ferð.“

Á erfiðustu stundunum segist Vilborg hafa gripið til þeirra gilda sem hún setti sér fyrir ferðina: jákvæðni, áræðis og hugrekkis. „Á erfiðustu stundunum íhugaði ég af hverju ég valdi þessi gildi, hvað þau þýddu fyrir mér og í kjölfarið náði ég að tala mig út úr aðstæðunum.“

Vilborg, sem gekk ein á pólinn, segir einverunni hafa fylgt gríðarlegt frelsi, maður sé engum háður. Hins vegar fylgi því að enginn sé til að deila upplifuninni með. „Ég sá aldrei eftir því að hafa farið ein en það eru kostir og gallar sem fylgja einverunni. Mig langaði alltaf að prófa þetta svona en það þýðir ekki að ég fari ein í næstu ferð,“ segir Vilborg og tekur fram að hún sé ekki farin að skipuleggja aðra ævintýraferð þótt hún útiloki ekkert í þeim efnum.

Vilborg fer vonandi með flugi frá suðurpólnum síðdegis í dag, ef veður leyfir, til Union Glacier, en þar er að finna bækistöðvar langflestra suðurpólsfara. Þar dvelur hún fram yfir helgi eða þar til hún nær flugi til Punta Arena syðst í Síle, en þangað flaug hún upphaflega frá Lundúnum í byrjun nóvember á síðasta ári.

Vilborg Arna komst á suðurpólinn um ellefuleytið í gærkvöldi.
Vilborg Arna komst á suðurpólinn um ellefuleytið í gærkvöldi.
mbl.is