Fleiri menn sendir til leitar

Tugir björgunarsveitarmanna eru við leit í Esjunni.
Tugir björgunarsveitarmanna eru við leit í Esjunni. mbl.is/ / Haraldur Guðjónsson

Landsbjörg er búin að kalla út fleiri björgunarsveitarmenn til að leita að manni sem er villtur í Esjunni. Vont verður er búið að vera á Suðvesturlandi í dag og spáð er 20m/sek, éljagangi og þoku í kvöld og nótt.

Síðdegis náðist símasamband við manninn sem villtur er á Esju. Það varaði þó stutt en hann gat komið þeim upplýsingum til stjórnenda leitarinnar að hann væri staddur á flatlendi. Það þrengir aðeins leitarsvæðið en það er þó enn stórt. Veður er mjög vont, mikið rok og slydda/snjókoma.

Hátt í 100 björgunarsveitarmenn í 23 hópum eru nú við leit en auk björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu hafa fjallabjörgunarhópar og leitarfólk verið kölluð út frá Borgarfirði og af Suðurnesjum.

Sótt er að leitarsvæðinu úr öllum áttum og allar mögulegar leiðir á fjallið kannaðar.

Maðurinn var á ferð á Kerhólakambi ásamt félaga sínum og hugðust þeir fara mismunandi leiðir niður af fjallinu. Leiðir þeirra skildi um hádegisbil. Þegar félagi mannsins kom niður beið hann í nokkurn tíma en sá týndi skilaði sér ekki. Náði hann þá að hringja í hann og kom í ljós að hann hafði tapað áttum og var orðinn blautur og kaldur. Ekki hefur náðst símasamband við viðkomandi síðan.

Ólöf Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að búið sé að kalla út fleiri björgunarsveitarmenn. Hún segir að þyrla Landhelgisgæslunnar sé farin af svæðinu, enda komið myrkur.

Ólöf segir að maðurinn, sem er um fimmtugt, sé þokkalega búinn, en nestislaus. Gengið hefur á með éljagangi, slyddu og rigningu í dag. Veðurútlit fyrir kvöldið er slæmt. Ólöf segir að leitað verði að manninum í kvöld og nótt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert