„ESB þarf ekki annað Bretland“

AFP

„Evrópusambandið höfðar greinilega ekki til Íslendinga lengur. Efnahagserfiðleikarnir og óljós framtíð evrunnar, þrátt fyrir allar björgunartilraunir ráðamanna í Brussel, sýna sambandið eins og gamlan bát í stórsjó.“

Þetta segir Alessio Pisanò, pistlahöfundur á vefsíðu samtakanna Young European Federalists sem starfað hafa frá árinu 1972 og berjast fyrir því að til verði eitt evrópskt sambandsríki. Tilefni skrifa hans á síðuna er ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að hægja á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Pisanò segir ákvörðunina benda til þess að ríkisstjórnarflokkarnir óttist fylgistap ef þeir leggi áherslu á inngöngu í sambandið fyrir þingkosningarnar í vor. Hann segir ennfremur að Íslendingar hafi aldrei verið áhugasamir um að ganga í Evrópusambandið þar sem því fylgi að fara eftir sameiginlegum reglum. Slíkar utanaðkomandi reglur um sjávarútveg og landbúnaðar séu ekki vel séðar.

Þá gagnrýnir Pisanò nálgun Íslendinga við Evrópumálin og segir hana einkennast af eiginhagsmunasemi. Hann segir að ef fólk geri sér ekki almennilega grein fyrir því hvað fylgi því að vera í Evrópusambandinu, bæði hvað varðar kosti og skyldur, verði samruni viðkomandi lands við sambandið aldrei traustur eða til þess fallinn að skila árangri. 

„Evrópusambandið þarf ekki annað Bretland núna,“ segir hann að lokum og vísar í oft á tíðum stirð samskipti breskra stjórnvalda við ráðamenn í Brussel.

Pistillinn á vefsíðu Young European Federalists

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert