Sprengjumennirnir í Laxá voru þrír

Áhorfendur klappa að sýningunni lokinni. Arngrímur Geirsson, einn sprengjumannanna þriggja, …
Áhorfendur klappa að sýningunni lokinni. Arngrímur Geirsson, einn sprengjumannanna þriggja, er lengst til vinstri í fremstu röð. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þrír menn sprengdu stífluna við Miðkvísl efst í Laxá fyrir rúmum 40 árum þegar Laxárdeilan stóð sem hæst og er einn þeirra enn á lífi, Arngrímur Geirsson í Álftagerði. Aldrei áður hefur komið fram hverjir sprengdu stífluna, fjöldi fólks vissi það en samtakamáttur Mývetninga var slíkur að enginn ljóstraði því upp, þrátt fyrir ítarlegar yfirheyrslur lögreglu.

Arngrímur Geirsson var viðstaddur forsýningu heimildamyndar um Laxárdeiluna í Skjólbrekku í Mývatnssveit í gærkvöldi og segist ekki sjá eftir neinu. Aðgerðirnar hinn 25. ágúst árið 1970 hafi verið algjörlega nauðsynlegar til bjargar náttúrunni og í raun byggð á stórum hluta svæðisins við Mývatn.

Hinir sprengjumennirnir voru Guðmundur Jónsson á Hofsstöðum og Sigurgeir Pétursson á Gautlöndum.

„Við Guðmundur voru æskuvinir og félagar,“ sagði Arngrímur við mbl.is að forsýningunni lokinni í gærkvöldi. Guðmundur var meindýraeyðir í sveitinni og hafði réttindi sem sprengimaður. „Það var ákveðið spontant á staðnum hverjir myndu sprengja og við þrír urðum fyrir valinu. Fólk vildi ekki að einhver einn yrði dreginn til ábyrgðar ef einhverjir yrðu teknir út úr hópnum og dæmdir,“ segir Arngrímur.

Þegar Mývetningar ákváðu að grípa til aðgerða stóð ekki til að sprengja. „Við héldum að þetta væri jarðvegsstífla og söfnuðumst saman með skóflur og haka til að ryðja henni burt, en þegar verkið var hafið kom í ljós að þetta var steyptur veggur. Það vissi enginn okkar - enda hafði enginn Mývetningur unnið við verkið.“

Mývetningar vissu um dínamít sem Laxárvirkjun geymdi í grenndinni og notuðu það við sprenginguna. „Fólki fannst ekki síðra að nota sprengiefni frá þeim sjálfum!“ segir einn viðmælenda í myndinni.

Myndin Hvellur verður sýnd aftur í Skjólbrekku í Mývatnssveit í kvöld og frumsýning verður í Bíó Paradís í Reykjavík á miðvikudagskvöldið.

Leikstjóri myndarinnar er Grímur Hákonarson en framleiðendur Sigurður Gísli Pálmason og Hanna Björk Valsdóttir.

Frétt mbl.is: Eina íslenska hryðjuverkið

Arngrímur Geirsson í Álftagerði, sá eini sprengjumannanna þriggja sem er …
Arngrímur Geirsson í Álftagerði, sá eini sprengjumannanna þriggja sem er á lífi. mbl.is/Skapti
Með lögum skal land byggja... Úr myndinni Hvelli. Þetta er …
Með lögum skal land byggja... Úr myndinni Hvelli. Þetta er skiltið sem hengt var framan á langferðabifreið fyrir fræga ökuferð fjölda Mývetninga til Akureyrar þar sem þeir afhentu bæjarstjóranum mótmælaskjal vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Laxá. mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert