„Svakalegt að lenda í svona“

Skemmdir á bifreið vegna blæðinga á slitlagi.
Skemmdir á bifreið vegna blæðinga á slitlagi.

„Við fórum og skoðuðum þetta í gær og vorum að reyna að átta okkur á því hvaðan þetta kæmi og hvaða kaflar þetta eru. Við erum búnir að kortleggja þetta nokkuð vel og erum að fara yfir málið. En það eru engar patentlausnir á þessu, það er bara þannig,“ segir Einar Gíslason, deildarstjóri Vegagerðarinnar á Sauðárkróki.

Eins og mbl.is hefur fjallað um hafa miklar blæðinga átt sér stað undanfarna daga á slitlagi einkum og Vestur- og Austur-Húnavatnssýslu. Hafa þær valdið skemmdum á bifreiðum auk þess að skapa mikla hættu fyrir vegfarendur en tjörukögglar hafa borist með bifreiðum og dreifst um vegi.

Vegagerðin hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvað valdi þessum blæðingum en líklegast sé að þar komi við sögu samspil ýmissa þátta og þá ekki síst veðurfar. Ekki síst að skipst hefur á þýða og frost. Spurður að því hvort hugsanlegt megi rekja blæðingarnar til þeirra efna sem notuð hafi verið við lagningu slitlags á vegina segir Einar að það sé eitt af því sem sé í athugun.

„Það er eitt af því sem verið er að skoða en það er ekkert komið út úr því í sjálfu sér. Þessar vetrarblæðingar eru þekktar en ekki eins og verið hefur að þessu sinni. En það var verið að breyta um svokallað mýkingarefni í klæðninguna. Við vorum að nota White Spirit sem mýkingarefni. Síðan var farið að nota repju og svo aftur lýsi sem mýkingarefni,“ segir hann.

Einar segir að meðal annars sé verið að athuga hvort tengsl séu þarna á milli en hins vegar sé ekkert hægt að fullyrða um það á þessari stundu. „Það er bara eitt af því sem við erum að skoða. Síðan er verið að kanna hvað sé hægt að gera til þess að draga úr þessu. En þetta er náttúrulega bara svakalegt að lenda í svona. Mjög óskemmtilegt. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert