Forsetinn ræðst að Gordon Brown

Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Íslendingar munu aldrei fyrirgefa Gordon Brown meðferð hans á þjóðinni í kjölfar efnahagshrunsins. Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali við Sky sjónvarpsstöðina í dag. Fréttamaður Sky segir að harðorð árás forseta Íslands gegn Brown sé afar óvenjuleg.

Ólafur Ragnar er staddur í Davos í Sviss í tilefni Alþjóða efnahagsþingsins og ræddi hann í dag við ýmsa erlenda fjölmiðla, þ.á.m. CNN, Bloomberg, Fox og Sky News, þar sem hann ræddi Icesave málið.

Öllum gleymdur á Bretlandi

„Ríkisstjórn Gordon Brown ákvað, henni til ævarandi skammar, að setja íslensk stjórnvöld á lista yfir hryðjuverkaríki og hryðjuverkaógn. Á þeim lista vorum við ásamt al Qaeda og Talíbönum. Því höfum við ekki gleymt á Íslandi,“ sagði Ólafur Ragnar í samtali við Sky News.

„Gordon Brown verður lengi minnst hjá þjóð minni um ókomnar aldir, löngu eftir að hann verður öllum gleymdur á Bretlandi.“ Forsætisráðherrann fyrrverandi er einnig staddur í Davos þessa dagana þar sem hann var fenginn til að tala um þróunarmál og málefni ungs fólks.

Evrusvæðið afhjúpar sig

Á mánudaginn mun EFTA dómstóllinn kveða upp dóm sinn í Icesave málinu. Í viðtalinu við Sky sagði Ólafur Ragnar að eignir Landsbankans hafi nægt til að endurgreiða þeim sem áttu innistæður og breskum stjórnvöldum. Sagði hann niðurstöðu EFTA dómstólsins eingöngu vera ráðgefandi og að hún muni ekki leiða til fjárhagslegra skuldbindinga af neinu tagi.

Ólafur Ragnar gaf einnig til kynna í viðtalinu að Ísland muni innan tíðar láta af fyrirætlunum sínum um aðild að Evrópusambandinu. Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að Ísland muni ganga í sambandið á kjörtímabili hans svaraði Ólafur: „Ef þú vilt að ég veðji á það, þá myndi ég tvímælalaust segja nei.“

Hann bætti því við að það væri alveg ljóst bæði á Íslandi og annars staðar í Norður-Evrópu að efasemdir gagnvart þróun Evrópusambandsins væru vaxandi. „Á undanförnum þremur árum hefur evrusvæðið afhjúpað sjálft sig sem allt aðra skepnu. Við höfum tekið þá ákvörðun að staldra við og halda ekki áfram á næstu mánuðum, en taka málið aftur upp síðar.“

Viðtal Sky News við Ólaf Ragnar

Gordon Brown
Gordon Brown AFP
„Leiðtogi Ísland ræðst að Brown vegna kreppunnar“ segir fyrirsögn Sky …
„Leiðtogi Ísland ræðst að Brown vegna kreppunnar“ segir fyrirsögn Sky News. Skjáskot/Sky News
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert