Reyndi að éta dýnu í fangaklefa

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann um fimmtugt til að greiða 20 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs og til að greiða lögreglustjóranum á Suðurnesjum 19.957 krónur í bætur fyrir skemmdir á dýnu í fangaklefa.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa 1. desember 2011 skemmt dýnu í fangaklefa þar sem hann var vistaður. Hann kom fyrir dóminn og játaði að hafa skemmt dýnuna en kvaðst hafa þurft að éta hana þar sem honum hafi ekki verið fært vott né þurrt í fangageymslunni.

Fyrir dómi kvaðst maðurinn hafa verið afar ósáttur við handtökuna og hann hafi fengið ómannúðlega meðhöndlun í fangaklefa. Hann viðurkenndi fyrir dóminum að hafa eyðilagt umrædda dýnu en það sé honum refsilaust þar sem honum hafi verið nauðsyn að éta dýnuna vegna hungurs.

Dómurinn taldi frásögn og skýringu mannsins um að hann hafi verið svo soltinn að hann hafi ekki átt annan kost en að leggja sér svampdýnu til munns svo fráleita að hún var virt að vettugi. Maðurinn hafi í það minnsta þrisvar sinnum fengið að drekka yfir nóttina og var einnig boðið kaffi sem hann afþakkaði.

Sakaferill mannsins er langur og frá árinu 1980 til ársins 2012 hefur honum fimmtán sinnum verið gerð refsing fyrir ýmis hegningarlaga- og umferðarlagabrot. Brot hans frá árinu 1999 varða þó einungis brot á umferðarlögum.

mbl.is