Aðstoði skuldug heimili

Steingrímur J. Sigfússon í pontu á flokkráðsfundi VG í kvöld.
Steingrímur J. Sigfússon í pontu á flokkráðsfundi VG í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vinstrihreyfingin - grænt framboð íhugar nú leiðir til að koma til móts við skuldug heimili sem fóru illa út úr verðbólgubálinu eftir efnahagshrunið. Við þær aðgerðir þurfi að sækja fé sem aflað er með skatttekjum. Þetta kom fram í máli formanns flokksins á flokksráðsfundi fyrir stundu.

„Við vissum að þetta yrði erfitt ... og auðvitað hefur það verið það,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, á flokksráðsfundi VG í kvöld, um verkefnið sem vinstristjórnin stóð frammi fyrir eftir efnahagshrunið. Sjö milljarðar í formi auðlegðarskatts hjá ríkasta fólkinu hefðu runnið til þeirra sem væru í mestri þörf. 

Lét Steingrímur ógert að útskýra hvaða leiðir kynnu að vera farnar í aðstoð við skuldug heimili.

<strong>Hættuleg skattalækkunarstefna</strong>

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins eitt mál að dagskrá; að lækka skatta... Það er ekkert hættulegra en ... þessi hugmyndafræði,“ sagði Steingrímur og vék að „litlu lögfræðingunum“ sem hefðu boðað þessa hugmyndafræði í kosningum á árunum fyrir hrunið.

Steingrímur sagðist ekki ætla að halda langa tölu um búið sem vinstriflokkarnir tóku við er þeir mynduðu meirihlutastjórn með Samfylkingu eftir kosningarnar í apríl 2009.

„Um þann árangur sem við höfum þó náð á fjölmörgum sviðum liggja auðvitað fyrir fjölmörg gögn,“ sagði Steingrímur.

<strong><br/></strong> <strong>Enginn fólksflótti eftir hrunið</strong>

Spár um stórfelldan landflótta hefðu ekki gengið eftir, líkt og nýlegar tölur sýndu fram á. Þótt Íslendingar vildu ekki missa fólk úr landi væri betra að það leitaði starfa á Norðurlöndum en gengi um atvinnulaust hér heima.

„Þegar upp er staðið fækkaði Íslendingum ekki nema örlítið á þessu eina ári ... Síðan hefur okkur fjölgað og nú erum við fleiri í dag en við höfum nokkru sinni verið,“ sagði Steingrímur og átti við fólksfækkun fyrsta árið eftir efnahagshrunið.

<strong><br/></strong> <strong>Fyrrverandi félagar hefðu komið í veg fyrir rammaáætlun</strong>

Formaðurinn vék að samþykkt rammaáætlunar og uppskar lófatak viðstaddra. Neðri-Þjórsá væri komin í skjól. Margar perlur á hálendinu sem menn hefðu borið víur í á hálendinu undanfarin ár væri komnar í skjól.

Ef stjórnin hefði ekki lifað hefði rammaáætlun aldrei verið samþykkt. Svo minnti Steingrímur á að sumir fyrrverandi félagar í VG hefðu jafnvel stutt að stjórnin færi frá.

<strong><br/></strong> <strong>Breytingar á stjórnarráðinu mikill áfangi</strong>

Steingrímur vék einnig að málum sem fjölmiðlar hefðu ekki fjallað mikið um að undanförnu, eins og til dæmis fækkun ráðuneyta úr 12 í 8.

„Það var eins gott að ríkisstjórnin var ekki fallin þá,“ sagði Steingrímur um þann áfanga að sjálfstæði Palestínu skyldi viðurkennt af vinstristjórninni. 

Uppskar hann þá lófatak.

<strong><br/></strong> <strong>Berjist gegn einkavæðingu Landsvirkjunar</strong>

Steingrímur vék einnig að andstöðu sinni og flokksins við einkavæðingu Landsvirkjunar, skref sem margir hefðu ljáð máls á að undanförnu.

„Hverjir ætla að standa vaktina í þeim efnum? Ætli það sé ekki betra að hafa okkur ef

það verður til umræðu næstu misserin?“ spurði Steingrímur.

<strong><br/></strong> <strong>Formaðurinn veikur á ferðalagi</strong>

Steingrímur sagðist vona að röddin og líkaminn myndi gera honum kleift að halda ræðuna, enda hefði hann verið á ferðalagi um Evrópu síðustu daga með flensu og ráma rödd á fundum með ráðherrum og áhrifamönnum.

„Sem er auðvitað hvorki heilsusamlegt eða gáfulegt,“ sagði Steingrímur um ferðalag án fullrar heilsu.

Svo sló hann á létta strengi um stjórnmálamenn og kvefpestir.

„Það væri kannski af tvennu illu betra fyrir stjórnmálamennina að missa röddina en heilastarfsemina.“

Flokkráðsfundur VG fer nú fram á Grand hóteli.
Flokkráðsfundur VG fer nú fram á Grand hóteli. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert