Er pláss fyrir unga fólkið?

Gerður bendir á, að sum börn hafi verið í svo …
Gerður bendir á, að sum börn hafi verið í svo mikilli umönnun á Barnaspítala Hringsins að þau hafa ekki mikil tengsl við heilsugæsluna. mbl.is/Golli

Er pláss fyrir ungt fólk með heilsuvanda innan heilsugæslunnar? Að því spurði Gerður Aagot Árnadóttir, heimilislæknir í Garðabæ, í erindi sem hún flutti á Læknadögum á fimmtudaginn. Hún segir að ungt fólk sem glími við langvinna sjúkdóma verði oft „munaðarlaust“ í kerfinu þegar það nær 18 ára aldri.

Þá eiga þau að færast úr barnakerfinu yfir í fullorðinskerfið. „Þau fá gjarnan mjög góða þjónustu sem börn í barnakerfinu. Svo fullorðnast þau og þá er ekkert alveg ljóst hver tekur við og hvernig það verður. Stundum verður það erfitt,“ segir Gerður í samtali við mbl.is.

„Mér finnst það skipta miklu máli að heilsugæslan sinni þessum einstaklingum í samvinnu við sérfræðikerfið,“ segir Gerður. Sérfræðilæknar á sjúkrahúsi myndu þá t.d. sinna þeim sem glíma við mjög sérhæfða sjúkdóma. Heilsugæslan komi svo að öðrum þáttum í lífi þessara ungmenna, t.d. með því að sinna geðheilsu þeirra og kynheilbrigði.

Gerður segir mikilvægt að ungt fólk sem glími við langvinna sjúkdóma hafi fastan heimilislækni og hafi góðan aðgang að heilsugæslunni.

„Vandinn er sá að þessi hópur er svolítið munaðarlaus þegar hann verður fullorðinn,“ segir Gerður. „Hvernig getum við hjálpað þessu unga fólki? Hvernig getum við flutt það úr barnakerfinu yfir í fullorðinskerfið og hverjir eiga að koma að því,“ spyr hún.

Mikilvægt að heilsugæslan sé virk

Í erindi sínu fjallaði Gerður um ungt fólk sem glímir við langvinnan heilsuvanda, s.s. fötlun, fólk með meðfædda hjartagalla, flókna taugasjúkdóma, flogaveiki og sykursýki svo nokkur dæmi séu tekin. Í dag lifi þetta fólk ágætu lífi með hjálp  nútímatækninnar og lyfja en á árum áður voru þetta sjúkdómar sem gjarnan drógu ungt fólk til dauða.

Gerður segir að ekki sé um mjög stóran hóp að ræða en hann sé viðkvæmur og hafi sérhæfðar þarfir.

Hún bendir á að tilraunaverkefni um yfirfærslu frá barnaspítalanum yfir á fullorðinssvið  hafi verið í gangi á Landspítalanum þar sem menn sinni mjög afmörkuðum hópi en reyni á sama tíma að þróa þessa almennu heilbrigðisþjónustu sem ungmennin þurfi á að halda. „Að reyna að flytja þetta unga fólk með farsælum hætti inn í þjónustu fullorðinskerfisins. En heilsugæslan er ekkert komin inn í það beint. Ég held að það sé mjög mikilvægt að heilsugæslan sé virkur aðili í umönnum og sem heilbrigðisþáttur fyrir þetta unga fólk.“

Gerður segir að heilsugæslan hafi upp á margt að bjóða og styrkleikar hennar séu margvíslegir og henti þessum hópi mjög vel. „Það er þessi nærþjónusta, þekking á fjölbreyttum þörfum og við erum vön því að takast á við mörg verkefni í einu. Við erum þjálfuð í því og við þekkjum lífshlaup og líðan fólks og vitum alveg hvernig lífið er,“ segir hún og bætir við að boðleiðir innan heilsugæslunnar séu tiltölulega stuttar.

Aðspurð segir Gerður að menn séu almennt sammála um það hvar vandinn liggi og hvernig menn eigi að taka á honum. Það sé hins vegar mikilvægt að menn reyni að vinna að þessu með mjög markvissum hætti.

Kvíði í foreldrum

Gerður segist kannast við það þegar hún er spurð hvort unga fólkið og fjölskyldur þess hafi gert athugasemdir við það að þau fái ekki nægilega góða þjónustu þegar þau færast yfir í fullorðinskerfið. „Já, þau hafa gert það. Umhyggja, sem er félag til stuðnings langveikum börnum, hefur  verið að taka þessa umræðu við barnaspítalann og við heilbrigðiskerfið, að þarna er fullt af fólki og það er kvíði í foreldrunum sem óttast þetta,“ segir hún.

Gerður bendir á að þetta sé viðkvæmur tími, bæði í lífi unga fólksins en einnig vegna þess að þau eigi engan samastað í kerfinu. „Þá verða stundum erfiðleikar,“ segir hún. Því skipti miklu að menn reyni að koma sér saman um ákveðið verklag og hjálpi ungmennunum í gegnum þetta tímabil.

„Sum þessara barna hafa verið í svo mikilli umönnun á barnaspítalanum að þau hafa kannski ekki mikil tengsl við heilsugæsluna. Við þekkjum þau ekki mikið eða höfum ekki miklar  upplýsingar um þau. Þannig að við erum ekkert endilega sjálfkrafa einhver aðili sem þú ferð að leita til,“ segir Gerður. Það sé því nauðsynlegt að kynna heilsugæsluna fyrir ungmennunum og koma á tengslum svo þetta gangi vel.

Hún bendir á að í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks komi fram að eitt af markmiðunum sé að fjölga fagstéttum inni í heilsugæslunni til að sinna fólki með langvinnan heilsuvanda. „Alþingi er búið að samþykkja þessa framkvæmdaáætlun, að þetta eigi að gera,“ segir Gerður og bætir við að þetta snúist um fjármagn.

Fjölga þarf fagstéttum innan heilsugæslunnar

Gerður segir að menn hafi áhyggjur af því að heilsugæslustöðvar séu undirmannaðar. „Okkur vantar fleiri heimilislækna og það auðvitað háir okkur,“ segir hún en bætir við að það tengist m.a. skipulagsmálum, en það sé t.d. hægt að skipuleggja heilsugæsluna með öðrum hætti.

Það sem hái mönnum einnig sé skortur á fleiri fagstéttum í heilsugæslunni. „Það þarf að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar, eins og félagsráðgjöfum og sálfræðingum. Það þarf að vera fjölbreyttari flóra fagfólks í heilsugæslunni. Ekki bara læknar og hjúkrunarfræðingar,“ segir Gerður.

Aðspurð segist hún hafa fengið jákvæð viðbrögð við sínu erindi. Það sé nauðsynlegt að þessi tvö kerfi, þ.e. heilsugæslan og sjúkrahúsin, tali saman. Ræði styrkleika og hvernig menn geti skipt með sér verkum. „Við erum farin af stað og við erum farin að tala saman og þá finnum við leiðirnar,“ segir Gerður að lokum.

Fjölga þarf fagstéttum innan heilsugæslunnar að mati Gerðar. Þar sé …
Fjölga þarf fagstéttum innan heilsugæslunnar að mati Gerðar. Þar sé þörf á fjölbreyttari flóru fagfólks. mbl.is/Eggert
Gerður Aagot Árnadóttir heimilslæknir.
Gerður Aagot Árnadóttir heimilslæknir.
mbl.is

Bloggað um fréttina