Katrín Júlíusdóttir vill verða varaformaður

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, býður sig fram til varaformanns Samfylkingarinnar. Katrín hafði verið orðuð við formannssætið, áður en hún laut í lægra haldi fyrir Árna Páli Ánasyni í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kópavogi.

Katrín Júlíusdóttir er 38 ára gömul og var kjörin á Alþingi árið 2003.  Hún var skipuð iðnaðarráðherra í maí 2009 og gegndi því embætti þar til hún tók við sem fjármála- og efnahagsráðherra í október 2012.  

„Ég tók þátt í að stofna Samfylkinguna og hef unnið að uppbyggingu flokksins allar götur síðan. Ég starfaði í ungliðahreyfingunni og hef vaxið úr grasrót til trúnaðarstarfa fyrir flokkinn. Ég þekki því Samfylkinguna og ég þekki fólkið sem í henni er. Það skiptir líka máli að það þekkir mig og mín verk. Sem varaformaður verður það verkefni mitt að tryggja að raddir þess hljómi og nái eyrum fulltrúa okkar við stjórn landsins,“ segir í tilkynningu Katrínar um framboðið.

Katrín var varaformaður og formaður ungra jafnaðarmanna á árunum 2000-2001. Katrín var fulltrúi Röskvu í Stúdentaráði og háskólaráði Háskóla Íslands 1997-1999 og sat í stjórn Evrópusamtakanna 2000-2003. Hún sat í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar 2000-2003, þar af sem varaformaður hennar 2001-2003. Katrín mun vera sú þingkona sem lengst hefur setið á Alþingi eftir næstu þingkosningar, nái hún kjöri. 
 
Katrín er gift Bjarna Bjarnasyni rithöfundi og eiga þau fjóra syni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert