Öryrki stefnir Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg mismunar borgurum eftir búsetu með því að neita að …
Reykjavíkurborg mismunar borgurum eftir búsetu með því að neita að greiða öryrkja sérstakar húsaleigubætur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðrún Birna Smáradóttir, leigjandi hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins (ÖBÍ), hefur stefnt Reykjavíkurborg til að fá viðurkennt að óheimilt sé að mismuna borgurum eftir búsetu. Reykjavíkurborg neitar að greiða henni sérstakar húsaleigubætur vegna þess að hún leigir húsnæði hjá hússjóði ÖBÍ en ekki hjá Félagsbústöðum hf. eða  á almennum markaði.

Fólk með mjög lítið milli handanna

Öryrkjabandalagið styður Guðrúnu Birnu í réttindabaráttu hennar enda segir Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, að um prófmál sé að ræða enda séu fjölmargir í sömu sporum og Guðrún og þetta snerti því marga. Um sé að ræða hóp sem sé veikur fyrir og muni mikið um slíkar bætur.

„Þetta snertir mjög fjárhag þeirra, þess vegna förum við með þetta fram. Þetta er fólk sem er með mjög lítið á milli handanna því til þess að leigja hjá félagasamtökum þarftu að vera undir ákveðnu tekjumarki og vera 75% öryrki.“ Guðmundur segir að ÖBÍ hafi lengi unnið að því að finna sem sterkast prófmál.

Gengur ekki að bíða og bíða

Frá árinu 2009 hefur ÖBÍ barist fyrir því að reglum borgarinnar um sérstakar húsaleigubætur verði breytt þannig að leigjendur að hússjóði ÖBÍ eigi rétt á sérstökum húsaleigubótum. 

Málinu hefur meðal annars verið skotið til innanríkisráðuneytisins sem komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 2010 að regla borgarinnar, um að einungis þeir sem leigja hjá Félagsbústöðum hf. eða á almennum markaði geti átt rétt á sérstökum húsaleigubótum, sé í andstöðu jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og til þess fallin að mismuna.

Beindi ráðuneytið þeim tilmælum til borgarinnar að breyta reglum sínum. Þrátt fyrir tilmæli ráðuneytisins og ítrekaðar áskoranir Öryrkjabandalagsins hefur borgin þráast við að breyta reglunum, að sögn Guðmundar. „Þeir hafa alltaf verið að bíða eftir einhverju, að gerð yrði breyting á þessu í heild sinni, en það náttúrlega gengur ekki að bíða eftir þessu í meira en tvö ár.“

Á að hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálp að halda

ÖBÍ bendir á að sérstakar húsaleigubætur séu hluti af félagslegri aðstoð sveitarfélaga til þeirra sem eiga erfitt með eða eru ófærir um að sjá sér fyrir húsnæði með öðrum hætti. 

„Hússjóður Öryrkjabandalagsins á og rekur íbúðir sem leigðar eru til öryrkja sem almennt eru illa staddir fjárhagslega. Þannig má almennt gera ráð fyrir að leigjendur hjá hússjóðnum þurfi á fjárhagslegri aðstoð að halda, líkt og raunin er með Guðrúnu Birnu. Hún fékk sérstakar húsaleigubætur á meðan hún leigði á almennum markaði en var synjað um bæturnar eftir að hún flutti inn í leiguhúsnæði á vegum hússjóðs ÖBÍ. Við þetta er ekki hægt að una.“

Bandalagið lítur svo á að Reykjavíkurborg sé að mismuna íbúum sínum með almennri reglu um að sumir Reykvíkingar á leigumarkaði eigi alls ekki kost á fjárstuðningi, af þeirri ástæðu að þeir séu leigjendur hjá hússjóði Öryrkjabandalagsins, án alls frekara mats á högum þeirra. „Sú mismunun er ólögmæt enda verður ekki séð að reglan geti grundvallast á málefnalegum sjónarmiðum. Reglan fer beinlínis í bága við tilgang sérstakra húsaleigubóta, þ.e. að hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálp að halda.“

Óljóst hvað telst vera á „almennum markaði“

Rök Reykjavíkurborgar fyrir því að hafna umsóknum þeirra sem leigja hjá hússjóði ÖBÍ eru þau að í sumum tilfellum sé leiga á húsnæði í eigu félags- og líknarsamtaka töluvert hagkvæmari og ódýrari en leiga á almennum markaði. ÖBÍ segir þessa fullyrðingu algjörlega ósannaða enda verði ekki séð að Reykjavíkurborg hafi rannsakað þessa forsendu áður en reglan var sett. 

„Þá er ekki ljóst hvaða húsnæði telst vera á „almennum markaði“. Ennfremur verður að benda á að tekju- og eignaviðmið fyrir umsækjendur um leiguíbúð hjá hússjóði ÖBÍ eru þau sömu og velferðarráðuneytið miðar við vegna leigu á félagslegum íbúðum.

„Allir sjá að þessi röksemdafærsla fær ekki staðist heldur hlýtur heildarmat á aðstæðum umsækjenda og á raunverulegri þörf þeirra að ráða því hverjir eiga rétt á sérstökum húsaleigubótum.“

Guðmundur Magnússon formaður ÖBÍ.
Guðmundur Magnússon formaður ÖBÍ.
mbl.is

Bloggað um fréttina