Tekið undir nær öll rök Íslands

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Golli

Það sem einkum kom á óvart við niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu var hversu afdráttarlaus dómurinn var. Þetta kom fram hjá fulltrúum í málsvarnarteymi Íslands í málinu á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Tim Ward, aðalverjandi Íslands, benti á í því sambandi að dómstóllinn hefði þannig tekið undir nær allan málflutning teymisins. Á hinn bóginn hafði ekki verið tekið mikið mið af málflutningi Eftirlitsstofnunar EFTA né breskra og hollenskra stjórnvalda. Undir þetta tóku hæstaréttarlögmennirnir Reimar Pétursson og Jóhannes Karl Sveinsson. Sagði Jóhannes að dómar væru ekki alltaf svo afgerandi.

Spurður um áhrifin innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), sem í eru ríki Evrópusambandsins auk EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein, sagði Ward ljóst að niðurstaða EFTA-dómstólsins hefði heilmikla þýðingu og að ekki væri hægt að horfa framhjá niðurstöðu hans þegar mál af þessum toga væru skoðuð.

Endanleg lagaleg niðurstaða - spurning með pólitíkina

Ward var einnig spurður að því hvort Hollendingar og Bretar gætu á einhvern hátt haldið málinu áfram. Hann svaraði því til að lagalega væri um endanlega niðurstöðu að ræða. Hins vegar væri annað mál hvernig málið yrði nálgast pólitískt af þeim. En það væri ekkert í dómi EFTA-dómstólsins sem annaðhvort hvetti til slíks eða drægi úr því.

Spurður að því hvort það væri rétt skilið að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) bæri að greiða málskostnað Íslands vegna málsins benti Ward á texta dómsins þar sem það kæmi einfaldlega fram. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins voru spurðir hver sá kostnaður væri en þeir sögðu þær tölur ekki liggja endanlega fyrir. Þá sögðust fulltrúar ráðuneytisins ekki vita til þess aðspurðir að formleg viðbrögð hefðu borist frá breskum og hollenskum stjórnvöldum vegna málsins.

Þá svaraði Jóhannes Karl þeirri spurningu hvort niðurstaðan gæfi tilefni til málsóknar gegn Bretum og Hollendingum, til að mynda í tilfelli Breta vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn Íslandi, sagðist hann ekki telja svo vera. Um óháð mál væri að ræða. Ward vísaði þeirri spurningu frá sér á þeim forsendum að honum hefði einungis verið falið að verja Ísland í Icesave-málinu.

Ward var að lokum spurður að því hvort ekki væri um að ræða stóran áfanga á ferli hans sem lögmaður og tók hann undir það. Það hefði verið ánægjulegt og heiður að taka að sér það hlutverk að verja Ísland í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina