„Við höldum veislu“

„Við höldum veislu,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra spurður að því hver væru næstu skref í Icesave-málinu af hálfu Íslands. Hann sagði að Hollendingar og Bretar ættu að senda Íslendingum heillaskeyti en átti ekki frekar von á því.

Tim Ward, málflutningsmaður Íslands í málinu, sagði það hafa verið heiður að vinna að málinu og með afar frambærilegu teymi. Erfitt hafi verið að sjá fyrir sér hver niðurstaðan yrði en þetta sé lokaniðurstaða og ekki hægt að áfrýja henni. Hann sagðist ekki vita hvaða fordæmi dómurinn gæti haft, til þess þurfi hann að lesa yfir dóminn.

Össur sagði allt það sem Ísland sagði um styrk og getu þrotabús Landsbankans hafa staðist. Þegar hafi verið greitt 93,5% af lágmarkstryggingunni og það blasi við að innan skamms verði búið að greiða allt og 15% meira. „Ég man ekki eftir banka sem fallið hefur í heiminum sem skilið hefur við með þessum hætti. Íslendingar munu standa við sínar skuldbindingar.“

Spurður um áhrif sem dómurinn kunni að hafa á evrópska banka segir Össur að þau geti verið einhver. Það kunni að hafa áhrif þegar búið sé að fella dóm sem segi beinlínis að ríki þurfi ekki að sjá til þess, eða reiða fram fé, til að innistæðutryggingasjóður þurfi að standa við skuldbindingar sínar. Þau gögn sem við lögðum voru fram til stuðnings málarekstrinum hafi bent til að ekkert landi hafi getað staðið undir því.

Össur Skarphéðinsson í utanríkisráðuneytinu í morgun.
Össur Skarphéðinsson í utanríkisráðuneytinu í morgun. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina