Enn er óvissustig á Austfjörðum

Fjarðarheiðin séð með vefmyndavél Vegagerðarinnar seint í kvöld.
Fjarðarheiðin séð með vefmyndavél Vegagerðarinnar seint í kvöld. vegagerdin.is

Farið var með snjóblásara upp á Fjarðarheiði í morgun, hann var að störfum í fimm tíma, en snjónum kyngdi jafnóðum niður og var því lítill árangur af þessu. Heiðin er því ennþá ófær. Formaður björgunarsveitarinnar á Seyðisfirði hefur áhyggjur af stöðu mála og segir að ófærðin geti haft alvarlegar afleiðingar ef einhver veiktist eða slasaðist í bænum.

„Við myndum auðvitað leita allra leiða, en auðvitað myndum við aldrei tefla í neina tvísýnu,“ segir Kristján Kristjánsson, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs. Sveitin sér um sjúkraflutninga frá Seyðisfirði og hann segir ekki spurningu um hvort, heldur hvenær ófærð hafi alvarlegar afleiðingar.

Ekki farið nema í brýnustu nauðsyn

Hann segir björgunarsveitarmenn ekki hafa þurft að koma bæjarbúum til aðstoðar. „Fólkið hérna veit að það kemst ekkert og er bara heima við. Við fórum upp á heiðina í gær og skoðuðum aðstæður og mátum það þannig að þarna yrði ekki farið nema í brýnustu nauðsyn og þá bara á snjóbíl.“

Gáfust upp og sneru við

Kristján segir að reynt hafi verið að ryðja Fjarðarheiðina bæði í gær og í morgun. Venjuleg snjóruðningstæki dugi ekki til og reynt hefði verið að ryðja með snjóblásara í morgun. „Þegar hann var búinn að vera á fimmta tíma að blása, þá gáfust þeir upp og sneru við. Það fyllti bara í förin jafnóðum.“

Kristján segir að reyna eigi aftur að ryðja snemma í fyrramálið.

Fyrr í kvöld lýsti Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum. 

Við kunnum að gera það besta úr aðstæðum

Enn er fjöldi fólks veðurtepptur á Seyðisfirði eftir að hafa farið þangað á þorrablót á laugardagskvöldið. Hljómsveitin Spútnik, sem lék fyrir dansi á þorrablótinu, er einnig veðurteppt og sló upp balli í kvöld til að hressa bæjarbúa við. 

„Við kunnum að gera það besta úr aðstæðum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þetta ástand er hér og líklega ekki í það síðasta,“ segir Kristján. „Við erum búin að læra að lifa með þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina