Komast ekki til vinnu vegna ófærðar

Vonskuveður hefur verið á Austurlandi síðustu daga. Þessi mynd er ...
Vonskuveður hefur verið á Austurlandi síðustu daga. Þessi mynd er tekin í gær. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Mikil ófærð hefur hamlað samgöngum til Norðfjarðar síðan á laugardag. Oddsskarð varð ófært á laugardagskvöld en var opnað fyrripart sunndags og var fært stuttan tíma eftir það, auk þess sem snjóflóðahætta hefur verið á veginum yfir Oddsskarð. Vegurinn var svo opnaður aftur í gær m.a. til að koma sjúkrabíl með sængurkonu frá Egilsstöðum yfir á Norðfjörð. Eina fæðingardeild Austurlands er á Norðfirði.

Síðan seinnipart sunndags hefur verið ófært um Oddsskarð til Norðfjarðar en um Oddsskarð liggur eini vegurinn til Norðfjarðar.

Afleiðingar ófærðarinnar eru margvíslegar, brauðlaust var orðið í búðum úti á Nesi, og mjólk orðin af skornum skammti, Morgunblaðið barst þó til Norðfirðinga á laugardag, svo þeir hafa haft helgarblöðin til aflestrar þennan tíma en síðan hefur ekkert blað borist þangað, né póstur yfirleitt.

Sjúkrabíll sem kom með sjúkling frá Fáskrúðsfirði á sunnudag lokaðist inni á Norðfirði, en var aðstoðaður yfir Oddsskarð í gær af Sveini Einarssyni sem sér um snjóruðning á skarðinu. Á meðan Fáskrúðsfjarðarbíllinn var tepptur á Norðfirði sá sjúkrabíllinn á Reyðarfirði um að vakta Fáskrúðsfjörð.

Starfsmenn Alcoa í álverinu á Reyðarfirði hafa ekki komist til vinnu síðan á laugardag og þeir starfsmenn frá Norðfirði sem voru við vinnu í álverinu á laugardag hafa búið á hótelinu á Reyðarfirði og gengið vaktir þaðan og gengið í störf þeirra sem ekki komast til vinnu á álverinu.

Einnig hafa þeir Norðfirðingar sem stunda vinnu sunnanmegin Oddsskarðs ekki komist til vinnu það sem af er þessari vinnuviku.

Von er til þess að hægt verði að opna Oddsskarð í dag. Þar er nú mikill snjór og hefur ekki komið svo mikill snjór og nú er í sex ár segja sumir og nefna allt upp í þrettán ár í því sambandi.

Unnið var að mokstri í gærkvöldi og fram á nótt eins og sést á þessu myndbandi sem Andri Fannar Traustason tók út úr gangamunna Oddsskarðsganga undir miðnætti í gær, en Andri er starfsmaður á skíðasvæðinu í Oddsskarði, vart þarf að taka fram að skíðasvæðið hefur verið lokað frá því á laugardag.

mbl.is

Bloggað um fréttina