Grínari yfirheyrir fangelsisstjóra

Forsíða nýjasta tölublað tímaritsins Nýs lífs.
Forsíða nýjasta tölublað tímaritsins Nýs lífs.

„Ég stoppa á bensínstöð, dæli dísil á bílinn og kaupi mér tyggjó. Ég get ekki verið þekktur fyrir að vera andfúll í viðtalinu.“ Svona hefst viðtal Þorsteins Guðmundssonar, sem er betur þekktur fyrir leiklistarhæfileika og gamanleik en blaðamennsku.

Hann er  höfundur forsíðuviðtals tímaritsins Nýs lífs sem fer í dreifingu á morgun. Viðmælandinn er Margrét Frímannsdóttir, fangelsisstjóri á Litla Hrauni, og fyrirsögnin er: Rekur fangelsi, ekki hótel.

Að auki tekur Þorsteinn myndir sem fylgja með viðtalinu.

„Litla-Hraun er ekki falleg bygging. Minnir svolítið á niðurnídda sokkaverksmiðju á Spáni nema hvað að nú er rigning og slabb. Ekta janúar,“ skrifar Þorsteinn og segist vera einfaldur maður sem spyrji einfaldra spurninga. 

Ekki ósvipað barnauppeldi

Margrét segir vistun fanga ekki ósvipaða barnauppeldi og segir meira en helming fanga hér á landi vera með ADHD. „Þetta eru ódælu börnin sem enginn réð við og sem eyðilögðu friðinn fyrir hinum. Þó svo að tekist hafi að greina þessa einstaklinga í skóla þá er eins og eftirfylgnina vanti. Þessum krökkum er hættara við að fara út í neyslu og hættara við að lenda í afbrotum. Þau geta ekki svarað fyrir sig vegna þess að þau eru með ofvirkni og athyglisbrest og verða oft fyrir miklu einelti í grunnskólunum.“ 

Hún setur Litla-Hraun í beinu samhengi við skólakerfið. „Ég hef verið með stráka sem eiga enga góða minningu úr grunnskóla, enga. Ég er ekki að tala um einstaklinga sem voru í grunnskóla fyrir tuttugu árum, heldur bara fyrir sjö, átta árum. Við höfum líka vistað fimmtán ára gömul börn í fangelsum þó að það sé sem betur fer ekki algengt og öll önnur úrræði hafi fyrst verið reynd. Það er rosalega sárt. Þegar maður fer að tala við barnið, kemur í ljós að skólagangan hefur ekki verið nein og viðkomandi er illa læs og skrifandi. Við verðum að bæta úr þessu.“

Strokið reyndi á

Spurð að því hvernig henni hafi liðið þegar fangi slapp úr fangelsinu fyrir nokkru svarar hún: „Illa,“ og segir strokið líka hafa reynt á aðra fanga, þar sem ekkert var vitað um afdrif strokufangans.

„Ég tók upp litlu myndavélina mína og smellti af í allar áttir. Svona er lífið, ég gekk út úr fangelsinu og hafði brotið reglur um ljósmyndun og trúlega allar reglur í nútímablaðamennsku,“ skrifar Þorsteinn í lokin.

Ein af myndum Þorsteins sem birtast með viðtalinu.
Ein af myndum Þorsteins sem birtast með viðtalinu.
Þorsteinn var ágætlega tækjum búinn er hann tók viðtalið við …
Þorsteinn var ágætlega tækjum búinn er hann tók viðtalið við fangelsisstjórann.
Þorsteinn tók sjálfur myndir sem birtast með viðtalinu við Margréti …
Þorsteinn tók sjálfur myndir sem birtast með viðtalinu við Margréti Frímannsdóttur.
Ein af myndum Þorsteins sem birtast með viðtalinu.
Ein af myndum Þorsteins sem birtast með viðtalinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert