Gerð Vaðlaheiðarganga að hefjast

Byrjað verður að bora Eyjafjarðarmegin.
Byrjað verður að bora Eyjafjarðarmegin. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Skrifað verður undir samning um gerð Vaðlaheiðarganga á morgun og í kjölfarið hefst undirbúningur við gerð ganganna. Fyrsta skref er að koma fyrir vinnubúðum Eyjafjarðarmegin. Miðað við uppfært tilboð verður kostnaður við gerð ganganna um 9,3 milljarðar króna.

ÍAV hf. og Marti Contractors Lts frá Sviss áttu lægsta tilboð í gerð Vaðlaheiðarganga þegar tilboð voru opnuð í október 2011. Tilboðið hljóðaði upp á 8.853.134.474 krónur. Það dróst að ganga frá samningi við verktaka vegna þess að lengri tíma tók að ganga frá fjármögnun gagnanna en reiknað var með. Tilboðið hefur verið uppfært miðað við hækkun byggingavísitölu sem þýðir kostnað upp á 9,3 milljarða. Til viðbótar féllust Vaðlaheiðargöng ehf. á að greiða kostnað sem verktakinn hefur haft af þeim töfum sem orðið hafa.

Pétur Þór Jónasson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga ehf., segir að byrjað verði að bora Eyjafjarðarmegin, en borun úr Fnjóskadal hefjist á næsta ári. Hann reiknar með að slegið verði í gegn árið 2015 og gert sé ráð fyrir að göngin verði afhent í desember 2016.

Vaðlaheiðargöng verða víðari en önnur göng sem gerð hafa verið hér á landi á síðustu árum eða 9,5 metrar í þvermál, en áður var miðað við 8,5 metra. Ástæðan fyrir þessu eru nýir staðlar. Göngin verða með vegskálum um 7,5 km að lengd.

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að áður en sprengingar hefjist þurfi verktakar að fá til landsins bora og ýmsan annan sérhæfðan búnað.

Til að byrja með verða um þrjátíu starfsmenn við gangagerðina en tvöfalt fleiri þegar vinnan nær hámarki, á árunum 2015 og 2016.

Meirihluti efnisins sem keyrt verður úr göngunum fer í vegi í Fnjóskadal og Eyjafirði. Hugmyndir hafa verið uppi um að efni úr göngunum verði notað í flughlöð á Akureyrarflugvelli. Til að Isavia, sem rekur flugvöllinn samkvæmt þjónustusamningi við ríkið, geti tekið við efninu þarf að moka upp jarðvegi við flugvöllinn og ríkið hefur ekki sett neina fjárveitingu í það verkefni.

Vaðlaheiðargöng.
Vaðlaheiðargöng. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert