Ísland krefst 1.400.000 km² á hafsbotni

Þau þrjú landgrunnssvæði, sem Ísland gerir tilkall til utan 200 …
Þau þrjú landgrunnssvæði, sem Ísland gerir tilkall til utan 200 sjómílna, þ.e. Ægisdjúp, Reykjaneshryggur og Hatton Rockall-svæðið, eru samtals rúmlega 1.400.000 km² að stærð eða um fjórtánfalt landsvæði Íslands.

Í dag kynnti sendinefnd Íslands greinargerð um ytri mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna í New York. 

Þau þrjú landgrunnssvæði, sem Ísland gerir tilkall til utan 200 sjómílna, þ.e. Ægisdjúp, Reykjaneshryggur og Hatton Rockall-svæðið, eru samtals rúmlega 1.400.000 km² að stærð eða um fjórtánfalt landsvæði Íslands.

Í næstu viku mun sendinefndin eiga fundi með sérstakri undirnefnd sem nýlega var skipuð til að yfirfara greinargerð Íslands. 

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að um sé að ræða hlutagreinargerð sem nær annars vegar til Ægisdjúps í suðurhluta Síldarsmugunnar og hins vegar til vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar. Hún tekur hins vegar ekki til  Hatton Rockall-svæðisins, sem er hluti af íslenska landgrunninu en Bretland, Írland og Danmörk/Færeyjar gera einnig tilkall til, né austurhluta Reykjaneshryggjar sem skarast við það svæði.

Greinargerð um þessi svæði verður skilað síðar. 

Í tilkynningunni segir að árið 2006 hafi náðst samkomulag á milli Íslands, Noregs og Danmerkur/Færeyja um skiptingu landgrunns utan 200 sjómílna í suðurhluta Síldarsmugunnar. Hinn 16. janúar sl. var síðan undirritað samkomulag milli Íslands og Danmerkur/Grænlands um afmörkun landgrunns utan 200 sjómílna vestan Reykjaneshryggjar milli Íslands og Grænlands.

Eiga sjálfkrafa landgrunn að 200 sjómílum

Samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna eiga strandríki sjálfkrafa landgrunn að 200 sjómílum sem eru jafnframt ytri mörk efnahagslögsögunnar. Mörg ríki, þ.á m. Ísland, eiga hins vegar sökum náttúrulegra aðstæðna víðáttumeiri hafsbotnsréttindi samkvæmt ákvæðum samningsins.

„Viðkomandi ríki skulu senda landgrunnsnefndinni ítarlega greinargerð um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og yfirfer nefndin greinargerðina, leggur tæknilegt mat á hana og gerir tillögur um landgrunnsmörkin. Á grundvelli tillagna nefndarinnar getur strandríkið ákveðið á endanlegan og bindandi hátt mörk landgrunnsins gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu sem liggur þar fyrir utan.“

Réttindin fá auka þýðingu í framtíðinni

Gert er ráð fyrir að mörk landgrunns strandríkja utan 200 sjómílna verði til lykta leidd í eitt skipti fyrir öll á komandi árum á grundvelli ákvæða hafréttarsamningsins. Lögð hefur verið áhersla á að Íslendingar öðlist yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunnssvæðum enda er ljóst að réttindi yfir landgrunninu munu fá aukna þýðingu í framtíðinni.

Þær náttúruauðlindir sem tilheyra landgrunninu eru jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma, aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna, t.d. jarðhiti, og lífverur í flokki botnsetutegunda og erfðaefni þeirra. Réttindi strandríkisins yfir landgrunninu utan efnahagslögsögunnar hafa ekki áhrif á réttarstöðu hafsins þar fyrir ofan sem telst úthaf og ná ekki til fiskistofna né annarra auðlinda þess.mbl.is