Styrmir Þór sýknaður í Exeter-málinu

Styrmir Þór Bragason mætti í héraðsdóm við málflutning í málinu.
Styrmir Þór Bragason mætti í héraðsdóm við málflutning í málinu. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, var í dag sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag af ákæru um umboðssvik í svokölluðu Exeter-máli. Ríkissjóður þarf að greiða allan málskostnað.

Þrír dómarar dæmdu í málinu og voru þeir allir sammála um að sýkna Styrmi Þór.

Ákæran í Exeter-málinu var ein af þeim fyrstu sem embætti sérstaks saksóknara gaf út.

Hæstiréttur kvað upp dóm í Exeter-málinu á síðasta ári en dómurinn yfir Styrmi Þór var ómerktur og sendur aftur til héraðsdóms. Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, og Ragnar Z. Guðjónsson,  fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, voru hins vegar dæmdir í Hæstarétti í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik í málinu. Mennirnir höfðu áður verið sýknaðir í héraðsdómi.

Styrmir Þór var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Jóns Þorsteins og Ragnars, en hann var þáverandi forstjóri MP Banka. Hann er sakaður um að hafa ásamt þeim Jóni og Ragnari lagt á ráðin um að fé yrði greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í október 2008. Hann er sakaður um að hafa ákveðið gengi bréfanna í þeim viðskiptum ásamt Jóni og Ragnari og hafa haft milligöngu um að einkahlutafélagið Tæknisetrið Arkea (sem síðar varð Exeter Holding) keypti stofnfjárbréfin á því verði sem hann hafði ákveðið ásamt meðákærðu, með 800 milljón króna yfirdráttarláni Byrs annars vegar og 43.916.385 króna fjármögnun MP Banka hins vegar.

Þá seldi MP Banki Tæknisetrinu Arkea einnig 119.244.757 stofnfjárhluti í Byr sparisjóði í þessum viðskiptum og voru kaupin fjármögnuð á sama hátt, með yfirdráttarláni Byrs sparisjóðs. Sérstakur saksóknari hélt því fram í ákæru að með þessu hafi tjónshættu MP Banka vegna lánanna verið komið yfir á Byr sparisjóð.

Þá er Styrmir Þór ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa í stöðu sinni sem framkvæmdastjóri MP Banka  tekið við framangreindum fjármunum sem aflað hafi verið með umboðssvikum Jóns og Ragnars.

Í dómnum sem féll í dag segir að með dómi Hæstaréttar, frá því í sumar, hafi  því verið slegið föstu að hin umdeilda lánveiting hafi verið ólögmæt. Styrmir hafi staðfastlega neitað því að honum hafi verið kunnugt um hvernig staðið var að málum hjá Byr. Dómurinn telur að framburður hans um þetta atriði hafi verið trúverðugur og að hann fái stuðning í framburði vitna.

„Hann [Styrmir] var hins vegar ekki í stöðu til að ákveða hvernig staðið yrði að lánveitingum af hálfu Byrs sparisjóðs og átti engan þátt í afgreiðslu málsins þar,“ segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert