„Fólk var tilbúið í ný vinnubrögð“

Árni Páll Árnason eftir að úrslit voru kynnt.
Árni Páll Árnason eftir að úrslit voru kynnt. mbl.is/Kristinn

„Ég er stoltur yfir því að flokksfélagar mínir skuli hafa treyst mér fyrir þessu verkefni með svo afgerandi hætti. Mér fannst ég finna fyrir mikilli stemningu og vilja fólks til að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Árni Páll Árnason, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, í viðtali við mbl.is stuttu eftir að hann hélt sína fyrstu ræðu sem formaður flokksins.

- Áttir þú von á svona afgerandi niðurstöðu?

„Ég vissi ekkert við hverju var að búast. Eina sem ég fann var að það var sama hvar ég kom þá hugsaði fólk alveg það sama. Það var alveg tilbúið í ný vinnubrögð og nýja leið til þess að nálgast stjórnmálin. Og var alveg dauðuppgefið á því ástandi sem stjórnmálin bjóða upp á í dag.“

- Þú nefndir ný vinnubrögð og talaðir um að stríðsreksturinn gengi ekki lengur. Fráfarandi formaður sagði í ræðu í gær að komandi kosningar snerust um stríð við Sjálfstæðisflokkinn. Þið eruð væntanlega ekki sammála í þessum efnum?

„Komandi kosningar snúast um að Samfylkingin setji fram trúverðuga sýn á þau flóknu viðfangsefni sem bíða þjóðarinnar. Þar er ég algjörlega sannfærður um að við höfum einstæða stöðu og keppni okkar í kosningunum mun felast í því að við setjum fram þessa sýn og menn sjái í samanburði milli okkar og annarra flokka muninn á stjórnmálaflokki eins og Samfylkingunni, sem hefur heildstæða sýn á vandamálin og trúverðugar lausnir á þeim, og svo hinsvegar hinum sem skýla sér bak við helgimyndir og ósögð orð. Varðstöðu um gömul kerfi, forréttindi hinna fáu og vilja engu breyta í reynd.“

„Flokkurinn sækir fylgi til allra Íslendinga“

- Sumir tala um að flokkurinn hafi færst til vinstri undir forystu fráfarandi formanns. Þú hefur oft verið kenndur meira við miðjuna eða hægra megin við hana. Heldur þú að Samfylkingin sæki meira inn að miðjunni undir þinni forystu?

„Flokkurinn sækir fylgi til allra Íslendinga. Flokkurinn ætlar sér að vera burðarflokkur. Hann á að vera burðarflokkur. Geta spannað allt frá hinu ysta vinstri og yfir miðjuna. Til þess var hann stofnaður og einungis þannig gegnir hann hlutverki sínu.“

- Þetta er væntanlega fundur þar sem upptakturinn fyrir komandi kosningabaráttu verður sleginn. Skoðanakannanir í gær ekki alveg hagfelldar - 15,8% samkvæmt nýjustu Gallup-könnun. Það er væntanlega mikið verkefni framundan?

„Já það er mikið verkefni framundan og okkur er ekki til setunnar boðið. Við verðum að sýna strax að við viljum slá nýjan takt og það skiptir miklu máli að við gerum það.“

Árni Páll fagnar sigri þegar úrslitin voru kynnt.
Árni Páll fagnar sigri þegar úrslitin voru kynnt. mbl.is/Kristinn
Árni Páll Árnason og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra eftir að nýr …
Árni Páll Árnason og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra eftir að nýr formaður var kjörinn í dag. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert