Rottweiler elti Karl og Kát

Karl Th. Birgisson
Karl Th. Birgisson

Karl Th. Birgisson fjölmiðlamaður komst í hann krappan ásamt hundi sínum Káti á Laugavegi í gærkvöldi er þeir gengu þar í flasið á rottweilerhundi sem „valsaði um eins og hann ætti Laugaveginn“ og elti þá Karl og Kát uns þeir áttu ekki annarra kosta völ en að flýja inn á veitingastað. Lögregla gat ekkert aðhafst, þar sem þetta var utan dagvinnutíma.

Á bloggsíðu sinni segist Karli svo frá: „Kannske var hann að leika sér, en okkur gafst ekki tóm til að sálgreina hann. Í kring var allnokkur fjöldi fólks, en enginn virtist eiga hundinn og enginn gerði sig líklegan að reyna að handsama hann eða ná taki á honum. Skiljanlega. Ég hefði ekki reynt það heldur, sterkur og flottur sem hann var.

„Mér hefur líka oft liðið betur en með ókunnugan rottweiler stökkvandi upp á mig án afláts. Það hefði svosem gilt um vel flesta aðra ókunnuga hunda, án taums og eiganda. Tegundin ræður ekki alltaf skapferli. Við komumst nokkra metra upp fyrir Laugaveg í hringsnúningum og flóttadansi sem eflaust hefur litið hæfilega kynduglega út,“ skrifar Karl.

Var orðinn skítlogandi hræddur

„Og nú var ég satt að segja orðinn skítlogandi hræddur. Það er óþægileg tilfinning. Svo að við tókum til fótanna – af karlmennsku okkar – inn á næsta veitingastað, þar sem dyravörður varnaði því að rottweilerinn elti okkur inn. Eftir svolitla stund hættum við okkur út aftur, en þá kom hann enn stökkvandi. Hann var ennþá laus og fólk færðist undan honum.“

Hundurinn valdi sér óvart annan útivistartíma

Karl hringdi í lögreglu sem hafði þegar frétt af hundinum en gat lítið aðhafst þar sem borgin sér um að fanga lausa hunda á milli 8 og 16 á virkum dögum. „Þessi hafði óvart valið sér annan útivistartíma,“ skrifar Karl. „„Eina ráðið sem við höfum er að kalla út sérsveitina til að skjóta hann,“ sagði lögregluþjónninn, en við vorum sammála um að það væru helzt til róttækar aðgerðir. Hundurinn hafði þrátt fyrir allt engan bitið ennþá.“

Karl veltir upp þeirri spurningu hvort ekki sé hægt að hafa vakt á kvöldin og um helgar til að bregðast við tilvikum sem þessu. „Við vorum heppnir í kvöld – þetta hefði getað verið hundur með verra geðslag eða almennt verr stemmdur af einhverjum ástæðum. Þá væri ég núna uppi á slysó og Kátur – tja, hvur veit?“

Rottweiler hundur. Mynd úr myndasafni.
Rottweiler hundur. Mynd úr myndasafni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert