Frekari stríðsrekstur ekki til árangurs

Árni Páll Árnason eftir að hann flutti fyrstu ræðu sína …
Árni Páll Árnason eftir að hann flutti fyrstu ræðu sína sem nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar í morgun. mbl.is/Kristinn

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar kjöri Árna Páls Árnasonar var lýst sem næsta formanni Samfylkingarinnar og síst voru fagnaðarlætin minni þegar Árni Páll sté í pontu á eftir ræðu keppinautar hans, Guðbjartar Hannessonar. Árni Páll fékk tæp 62% atkvæða í formannskjörinu, en rúmlega 5.600 manns tóku þátt í kosningunni, eða tæplega 31% flokksmanna.

„Þið hafið treysti mér fyrir miklu verkefni og ótrúlegu fjöreggi,“ sagði Árni Páll.

Hann þakkaði Guðbjarti Hannessyni fyrir mótframboðið og sagði mikinn brag hafa verið í baráttunni og að henni hafi verið hagað með þeim hætti að sá sem yrði undir gæti stutt hinn að baráttu lokinni. Hann þakkaði Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir hennar störf og sagði engan annan hafa getað gert þetta á erfiðum tímum.

„Forréttindi að hafa starfað í ríkisstjórn Jóhönnu“

Hann sagði Jóhönnu hafa átt inni uppsafnað traust sem hún hafi lagt flokknum til. Hann sagði það hafa verið forréttindi að hafa starfað í ríkisstjórn Jóhönnu, en Árni Páll var félags- og tryggingamálaráðherra 2009 til 2010 og efnahags- og viðskiptaráðherra 2010 til 2011 þegar honum var vikið úr ríkisstjórn.

„Þakka þér  Jóhanna fyrir þitt starf í þágu flokks og þjóðar,“ sagði Árni Páll.

„Við erum annars eðlis“

Árni Páll gerði stöðu Samfylkingarinnar að umtalsefni sínu og sagði: „Við erum annars eðlis en hefðbundinn valdaflokkur. Samfylking var stofnuð til höfuðs fjórflokknum en ekki til að vera hluti af honum,“ sagði Árni Páll.

„Við erum á tímamótum og það er erfitt að sjá að frekari stríðsrekstur verði Samfylkingunni til árangurs eða virðingarauka. Við höfum háð of mörg stríð án árangurs þetta kjörtímabil og við verðum að læra af þeirri reynslu,“ sagði Árni Páll og hvatti til annarra lausna.

Jóhanna Sigurðardóttir, fráfarandi formaður, sagði „stóra stríðið“ verða við Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum þannig að ekki virðist fullur samhljómur með fráfarandi og nýjum formanni í þeim efnum.

Hann gerði gjaldmiðilinn að umtalsefni sínu og sagði stærsta málið í framtíðinni vera glímuna við „rótarmeinið,“ sem hann kallaði íslensku krónuna.

Árni Páll sagði Samfylkinguna eiga að vera raunsæjan baráttuflokk.

„Ég vil leiða þennan flokk sem raunsær baráttumaður,“ sagði Árni Páll.

Frétt mbl.is: Árni kosinn formaður Samfylkingar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert