Enn drepst síld í Kolgrafafirði

Gríðarlegt magn var af síld í firðinum.
Gríðarlegt magn var af síld í firðinum. Ljósmynd/Róbert Arnar Stefánsson

Um sjö þúsund tonn af dauðri síld hefur rekið upp í fjöru í Kolgrafafirði. Er þetta í annað sinn á stuttum tíma sem verulegt magn af fiski hefur drepist í súrefnissnauðum sjónum. Líffræðingur segir mikla hættu á því að þetta muni endurtaka sig á næstunni.

Róbert Arnar Stefánsson líffræðingur gekk um 2,5  kílómetra í fjörunni í gær. „Við mátum að þarna væru um sjö þúsund tonn í fjörunni. En svo sáum við að botninn var alveg hvítur og því má gera ráð fyrir að mun meira sé dautt en þessi sjö þúsund tonn. Þetta virðist vera sams konar atburður og varð í desember,“ segir Róbert. 25-30 þúsund tonn af síld drápust í Kolgrafafirði í desember.

Að sögn Róberts mun Hafrannsóknarstofnun fara á morgun og mæla nánar umfangið. Allar mælingar stofnunarinnar hafi sýnt hættulega lágt súrefnismark í firðinum.

Hættan vex vegna rotnunar

Róbert segir að slíkir atburðir hafi ekki verið vel skráðir en vitað sé til þess að sambærileg atvik hafi komið  upp í firðinum á 20. öld. Þá hafi dauðinn að mestu átt sér stað að hausti til og um sumar. Í millitíðinni hafi verið sett brú í firðinum.

„Það er mjög erfitt að draga ályktun um það hvers vegna þetta gerist. Það eina sem við vitum er að hættan vex eftir því sem meira rotnar á botninum. Rotnun tekur til sín mikið súrefni. Því er hætt við að þetta ástand verði viðvarandi og mikil hætta á endurteknum atburðum svo lengi sem síldin fer inn á fjörðinn. Síldin virðist ekki hafa rænu á að forðast það að fara þarna inn og kannski er hún að flýja háhyrninga, við vitum það ekki,“ segir Róbert.

Grútarblautir fuglar

Að sögn Róberts mátti inn á milli finna þorsk, krossfisk og ígulker. „Í allri fjörunni var grútarslikja og fuglarnir sem sækja í fjöruna eru í mjög mikilli hættu. Þeir eru þarna í þúsundatali að næla sér í ferska síld. Við sáum ekki grútarblauta fugla en höfum myndir af tjaldi og hvítmáv sem voru blautir,“ segir Róbert.

mbl.is

Bloggað um fréttina