„Nauðgun er ekki kynlíf“

Hildur Hjörvar formaður Hallveigar – Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík.
Hildur Hjörvar formaður Hallveigar – Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík.

„Þetta skýtur skökku við þá staðreynd að kynferðisbrot eru ofbeldisbrot. Nauðgun er ekki kynlíf, þar af leiðandi skiptir ekki máli hvort nauðgarinn ætli sér kynferðislega fullnægju af verknaðinum eða ekki.“ Þetta segir í ályktun ungra jafnaðarmanna í Reykjavík um niðurstöðu Hæstaréttar í nýlegu máli.

Hallveig – Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík segjast í ályktuninni harma niðurstöðu Hæstaréttar í máli ákæruvaldsins gegn Elíasi Valdimari Jónssyni, þar sem meirihluti dómara komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi hans væri ekki nauðgun í skilningi laganna, heldur líkamsárás.

„Elías Valdimar gerðist sekur um að þvinga fingur sína inn í leggöng og endaþarm brotaþola og klemma þá saman. Þrátt fyrir að augljóslega sé um að ræða gróft brot gegn kynfrelsi brotaþola, ekki síður til þess fallið að niðurlægja hana en að valda henni líkamlegum sársauka, taldi fjögurra dómara meirihluti ekki að um væri að ræða nauðgun þar sem ætlun Elíasar hefði ekki verið sú að fá sjálfur kynferðislega útrás.“ 

Stórt skref afturábak

Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík segja niðurstöðuna leiða af sér að skipulagðar nauðganir í stríði séu þá ekki nauðganir. „Upplifun brotaþola skiptir ekki máli – heldur ætlun gerandans. Þetta skýtur skökku við þá staðreynd að kynferðisbrot eru ofbeldisbrot. [...] Ef einstaklingur brýtur gegn kynfrelsi annars einstaklings er um að ræða kynferðisofbeldi. Innbrot verður ekki minna innbrot eftir því hvort innbrotsþjófurinn ætlar sér að auðgast sjálfur eða ná sér niður á eiganda hússins.“

Þá segir að niðurstaðan sé stórt skref afturábak í baráttu fyrir viðurkenningu á kynferðisbrotum sem ofbeldisbrotum sem gerendur bera sökina og skömmina á, ekki þolendur. „Um leið hefur Hæstiréttur gert lítið úr þjáningum brotaþola. Hallveig efast ekki um að þeir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson [hæstaréttardómarar] hefðu upplifað brotið gegn kynfrelsi sínu, hefðu þeir lent í svipuðum aðstæðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina