„Þetta er mjög skrítið allt saman“

Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. mbl.is/Frikki

„Það er ekkert búið að ákveða í þeim efnum og ef að það verður þá munum við ræða það á nefndarfundi,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis um það hvort ákvörðun hafi verið tekin um að ræða samskipti íslenskra og bandarískra stjórnvalda um komu bandarísku alríkislögreglunnar FBI hingað til lands haustið 2011 vegna meintra aðvarana hennar um innrás í tölvuupplýsingakerfi Stjórnarráðsins.

„Það yrði náttúrlega ekki gert nema það væri borið upp í nefndinni fyrst hvort við ættum að gera það,“ sagði Valgerður.

Óvíst hvar málið eigi heima

Hún segir enga fundi vera í þessari viku þar sem um kjördæmaviku sé að ræða. Hún segir ekki víst hvar málið eigi heima. Hún segir að auk utanríkismálanefndar kunni það að eiga heima hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða hjá allsherjar- og menntamálanefnd, sem fari með dómsmál.

„Ég er alveg sammála því að það þurfi að skoða þetta. Þetta er mjög skrítið allt saman,“ sagði Valgerður.

Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, sagði fyrr í kvöld við mbl.is að hún myndi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert