Fær ekki svör um kostnað við Hörpu

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa. mbl.is/Hjörtur

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir líklegt að Jón Gnarr, borgarstjóri, misskilji spurningu hans um kostnað við Hörpu viljandi í þeim tilgangi að koma sér undan því að upplýsa almenning um heildarbyggingarkostnað. „Af hverju fá skattgreiðendur ekki að vita það?“ spyr Kjartan.

Málið var tekið fyrir á fundi borgarstjórnar í kvöld og lagði Kjartan þá fram fyrirspurn sína að nýju, en hann lagði hana áður fram 4. september sl. „ Í fyrirspurninni var m.a. spurt um heildarbyggingarkostnað við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi og óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv.

Þrátt fyrir að spurningin sé orðuð með skýrum hætti virðist borgarstjóri einhverra hluta vegna hafa misskilið hana því í svari hans er einungis gert grein fyrir þeim byggingarkostnaði, sem til hefur fallið eftir yfirtöku verkefnisins árið 2009,“ segir Kjartan.

Afar sérstakt að ítreka þurfi fyrirspurn

Hann segir að í svarinu sem hann fékk frá borgarstjóra 15. janúar sl. um kostnað við húsið hafi komið fram að borgarstjóri sjái ekkert athugavert við að nokkrir af æðstu embættismönnum borgarinnar, sem eru undir beinni stjórn hans, neituðu Kjartani ítrekað um skýrslu KPMG um rekstur þess.

„Afar sérstakt er að kjörinn fulltrúi þurfi að ítreka slíka spurningu, sem var orðuð mjög skýrt. Finnst mér líklegt að menn hafi misskilið spurninguna viljandi í þeim tilgangi að koma sér undan því að upplýsa almenning um hver heildarbyggingarkostnaður Hörpu er í raun og veru.“ 

Kjartan óskaði eftir því að úr þessu verði bætt og skýr grein gerð fyrir öllum byggingarkostnaði við húsið frá upphafi hverju nafni sem hann nefnist.

Fyrirspurn Kjartans:
1. Hver er heildarbyggingarkostnaður við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv. Þá er óskað eftir yfirliti yfir þær framkvæmdir, sem eftir eru eða standa yfir og kostnaðaráætlanir vegna þeirra.“

Kjartan Magnússon í ræðustóli.
Kjartan Magnússon í ræðustóli. mbl.is/Ómar
mbl.is