Keppst við að bjarga verðmætum

„Þetta er fjáröflun fyrir þau og við tökum þátt í að hreinsa fjöruna og fáum auk þess gott hráefni. Við erum að setja þetta í minkafóður og flytja það til Danmerkur,“ segir Guðlaug Birna Aradóttir, framkvæmdastjóri Skinnfisks í Sandgerði, í samtali við mbl.is en fyrirtækið hyggst kaupa síld sem rekið hefur á fjörur við Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi og grunnskólabörn frá Grundarfirði tíndu saman í morgun.

Ungmennin hafa nú hætt að tína síldina þar sem sjór er farinn að falla að ströndinni en Guðlaug segir að ætlunin sé að meta framhaldið núna í hádeginu. Aðspurð segir hún sjóinn vera það kaldan að síldin verði í lagi sem hráefni næstu tvo, þrjá daga. En hafa verði hraðar hendur engu að síður ef hægt á að vera að gera verðmæti úr henni.

Skinnfiskur greiðir ungmennunum 8 krónur á kílóið en að sögn Gunnars Kristjánssonar, fréttaritara Morgunblaðsins og mbl.is, hafa líklega safnast 25-30 tonn í morgun sem ætti að gefa ungmennunum 200-240 þúsund krónur sem ætlunin er að nýta til félagsstarfa.

Þá segir Gunnar að bændur úr nágrenninu séu að reyna að nýta síldina og þá hafi bændur úr Biskupstungum einnig gert hið sama. Ennfremur hafi aðilar á Eyjafjarðarsvæðinu sýnt því áhuga að gera verðmæti úr síldinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert