Buðu eins launaflokks hækkun

Hjúkrunarfræðingar höfnuðu tilboði Landspítalans á félagsfundi sl. mánudag.
Hjúkrunarfræðingar höfnuðu tilboði Landspítalans á félagsfundi sl. mánudag. mbl.is/Árni Sæberg

Landspítalinn hefur boðið að sú hækkun launa, sem boðin hefur verið, verði greidd með eins launaflokks hækkun til allra hjúkrunarfræðinga. Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að stjórnvöld verði að stíga stærra skref í jafnlaunaátaki núna.

Elsa sagði að Landspítalinn hefði fengið þau skilaboð frá stjórnvöldum að þau væru tilbúin til að verja 370 milljónum í að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Það þýddi 296 milljónir til hjúkrunarfræðinga þegar búið væri að draga frá launatengd gjöld.

Elsa sagði að í viðræðunum hefðu stjórnendur Landspítalans sagt við hjúkrunarfræðinga að hægt væri að greiða þessa hækkun með því að leggja áherslu á að bæta aðallega kjör þeirra sem hefðu mesta menntun, en spítalinn væri líka tilbúinn til að deila þessu út með því að hækka alla hjúkrunarfræðinga jafnt um einn launaflokk.

„Ef allir hækka um einn launaflokk þá myndu engar aðrar hækkanir fylgja með,“ sagði Elsa. Hún sagði að ef hin leiðin væri valin, að hækka þá sem hafa mesta sérmenntun, myndu sumar hjúkrunarfræðingar fá enga hækkun, en aðrir meira. Nefnt hefur verið að þeir sem mest fengju mættu ættu von á 12,5% hækkun. Elsa sagði að þá væru menn að tala um hjúkrunarfræðing með meistarapróf sem ynni 24 tíma aðra hverja helgi.

„Stjórnvöld tala um jafnlaunaátak, en hjúkrunarfræðingar leggja áherslu á að stigið verði stærra skref núna, sem þýðir að það þarf meira fjármagn að koma til núna strax. Síðan viljum við fá einhverja staðfestingu á því að næsta skref verði stigið í miðlægum kjarasamningum í byrjun næsta árs og þá hugsanlega að þriðja skrefið verði stigið í stofnmanasamningum þar á eftir.

Ég held að það gerir sér allir grein fyrir því að þessum 20-25% launamun verði ekki eytt í einu skrefi. Menn vilja stærra skref núna vegna þess að launaskriðið er meira hjá öðrum hópum hjá ríkinu. Ef skrefið sem tekið yrði núna er svona lítið þá verðum við í alveg sömu stöðu eftir eitt ár,“ sagði Elsa.

Hafa frest til 12. febrúar að svara

Elsa sagði að stjórnendur á Landspítalanum hefðu í gær og í dag verið að ræða við einstaklinga og hópa sem sagt hafa upp um hvort þeir væru tilbúnir til að draga uppsagnir til baka.

Hjúkrunarfræðinga hafa frest til 12. febrúar að taka ákvörðun um hvort þeir standa við uppsagnirnar. Spítalinn hefur ákveðið þessa dagsetningu vegna þess að stjórnendur hans þurfa að geta skipulagt starfsemina miðað við þann mannskap sem verður við störf 1. mars nk.

„Að sjálfsögðu verða stjórnendur spítalans að sýna ábyrgð og undirbúa það ef svona margir hjúkrunarfræðingar hætta. Ef það verður niðurstaðan að svona margir hjúkrunarfræðingar hætta þá erum við að stíga risaskref aftur á bak í heilbrigðisþjónustu hér á landi. Það er eitthvað sem mun taka langan tíma að ná upp aftur.

Þetta er mjög alvarlegt og ég tel að stjórnvöld verði að svara fyrir þessa stöðu. Mér finnst furðulegt að velferðarráðherra ætli ekkert að tjá sig um málið fyrr en eftir 12. febrúar, eins og haft var eftir honum í gær,“ sagði Elsa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert