Bæta við mannskap og rúmum

Mjög mikið álag hefur verið á Landspítalanum vegna yfirlagna á öllu sjúkrahúsinu. Er það fyrst og fremst vegna mikillar aðsóknar og vegna þess að á LSH séu um 50 sjúklingar sem bíða eftir vistun á hjúkrunarheimili.

Þetta kemur fram á vef LSH, en framkvæmdastjórar á Landspítala komu saman í gær til að fara yfir stöðuna.

Þá segir, að að auki hafi verið lokað fyrir innlagnir á blóðlækningadeild vegna VRE-sýkingar. Þar sé unnið hörðum höndum að því að uppræta sýkinguna. 

„Hafin er vinna við að opna fleiri rúm um helgina á lyflækningasviði, skurðlækningasviði og kvenna- og barnasviði og því að bæta í mönnun hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og lækna. 

Við viljum koma á framfæri þakklæti til alls starfsfólks Landspítala fyrir þeirra góðu vinnu á þessum erfiðu tímum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert