Ákvörðunin ekki tekin í mínum flokki

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, segir að engin ákvörðun hafi verið tekin í sínum flokki um að hætta við breytingar á stjórnarskránni líkt og fram kemur í frétt Morgunblaðsins. Í fréttinni segir að ríkisstjórnarflokkarnir hafi gefið upp á bátinn að fá nýja stjórnarskrá samþykkta í heil sinni. Þreifingar séu bak við tjöldin um samkomulag um einstakar breytingar fyrir vorið.

„Þessi ákvörðun hefur ekki verið tekin í mínum flokki,“ sagði Katrín í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Birgitta Jónsdóttir sagðist hafa rætt við stjórnarliða um málið. Sagði hún að svo virtist sem Morgunblaðið hefði tekið sér „skáldaleyfi“. Hún vitnaði í póst frá forseta þingsins þar sem fram kom að stjórnarskrármálið væri ekki á dagskrá í næstu viku. Sagðist hún heldur vilja ræða stjórnarskrána á þinginu en að fram færi kjördæmavika.

Katrín sagði að heilmikil vinna hefði þegar farið fram um stjórnarskrárfrumvarpið. Allar nefndir hefðu verið undirlagðar. Varðandi hvort frumvarpið yrði afgreitt á yfirstandandi þingi sagði hún það verða að ráðast. Ýmislegt væri hægt en mjög stuttur tími væri eftir af þinginu.

Óttar Proppé, frambjóðandi Bjartrar framtíðar, sagði flokk sinn vilja endurskoða stjórnarskrána á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Hann sagði að helst ætti að klára málið á þessu þingi en að bætti við að „heimurinn endar ekki eftir þetta þing.“

Enginn fulltrúi frá Samfylkingunni var í Vikulokunum í morgun.

mbl.is