Vilja sameinast í A-Húnavatnssýslu

Möguleg sameining í Austur-Húnavatnssýslu
Möguleg sameining í Austur-Húnavatnssýslu mbl.is/Elín Esther

Kanna á möguleika á sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu en bæjarráð Blönduósbæjar samþykkti að leita eftir stuðningi og aðkomu sveitarfélaga á svæðinu um viðræður um sameiningu Austur-Húnavatnssýslu í eitt sveitarfélag. Upphaflega óskaði bæjarstjórn Blönduósbæjar eftir samstarfi við Húnavatnshrepp um gerð á úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna tveggja, enda starfa sveitarfélögin saman að mörgum verkefnum og hafa gert í í mörg ár.

Jens P. Jensen, sveitarstjóri, Húnavatnshrepps, segir sameiningu koma til greina en hann telur raunhæfara að sameina öll sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu. „Við fengum erindið frá Blönduósbæ um miðjan desember og tókum það strax til skoðunar. Okkur finnst hins vegar raunhæfari valkostur að skoða sameiningu allra sveitarfélaga í sýslunni, heldur en bara sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar.“

Kostir og gallar sameiningar

Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, segir sveitarfélögin á svæðinu nú þegar vinna sameiginlega að mörgum málum og því eðlilegt að skoða það hvort ekki sé rökrétt að taka skrefið til fulls og sameina svæðið í eitt sveitarfélag. „Í dag vinnum við saman að öldrunar- og menningarmálum, rekum saman tónlistarskóla og vinnum sameiginlega að ýmsum öðrum málum eins og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.“ Ágúst telur því forsendu vera fyrir því að sveitarfélögin komi saman og skoði möguleikann á sameiningu.

Adolf H. Berndsen, oddviti á Skagaströnd, segir ekkert erindi hafa borist frá bæjarstjórn Blönduóss um sameiningu eða úttekt á mögulegri sameiningu. Hann segir þó að miðað við umræðuna kæmi það honum ekki á óvart þó erindið bærist innan tíðar frá Blönduósingum.

„Hvernig sveitarstjórnin tekur á slíku erindi get ég ekki sagt á þessari stundu,“ segir Adolf og minnir á að í kosningum um sameiningu árið 2005 felldu Skagstrendingar sameiningu sveitarfélaga svæðisins en íbúar á Blönduósi kusu með sameiningu. „Umræða um sameiningu hefur ekki verið nein eftir kosningarnar 2005 en frá þeim tíma hefur þó samstarf sveitarfélaganna aukist á mörgum sviðum og samstarfið verið gott á milli okkar.“

Spurður um afstöðu sína til sameiningar segir Adolf aðkomu stjórnvalda vera lykilforsendu fyrir því að hægt verði að sameina svæðið í eitt sveitarfélag. „Hér hefur verið lögð áhersla á nýtingu á orku úr Blönduvirkjun til uppbyggingar atvinnustarfsemi á svæðinu en við höfum átt lítið bakland hjá stjórnvöldum.“ Komi ríkisvaldið að viðræðum um sameiningu og væntingar verði um aðkomu stjórnvalda að frekari atvinnuubyggingu telur Adolf að viðhorf til sameiningar gætu orðið önnur á Skagaströnd.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert