Tekur lengri tíma að þýða álitið

Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður.
Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður. mbl.is/Frikki

Tekin var ákvörðun um það í dag af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að gera opinbert bráðabirgðaálit Feneyjanefndar Evrópuráðsins um frumvarp að nýrri stjórnarskrá þar sem í ljós hafi komið að lengri tíma myndi taka að þýða álitið yfir á íslensku en búist var við.

Þetta sagði Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar, í umræðum á Alþingi í dag í svari til Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, en Vigdís spurði að því hvers vegna álit Feneyjanefndarinnar hefði verið merkt sem trúnaðarmál þegar það var afhent fulltrúum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Valgerður sagði að ástæðan fyrir trúnaðinum hafi verið sú að ekki hefði staðið til að gera álit Feneyjanefndarinnar opinbert fyrr en íslensk þýðing lægi fyrir. Álitið hefði verið birt á heimasíðu Alþingis um klukkan 13:00 í dag en þess má geta að fjölmiðlar höfðu þá þegar fjallað um efni þess. Hún upplýsti ennfremur að ekki stæði til að funda frekar um málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrr en álitið hefði verið þýtt á íslensku.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega að til hafi staðið að láta trúnað gilda um álit Feneyjanefndarinnar vegna þess að það væri á ensku. Velti hún fyrir sér hvort til hafi staðið að halda álitinu sem lengst frá þingmönnum og rifjaði upp í því sambandi þegar halda átti fyrstu Icesave-samningunum frá þinginu. Sagði hún að svona vinnubrögð gengju ekki og óskaði eftir því að forsætisnefnd Alþingis tæki málið til skoðunar.

Drög að áliti

mbl.is

Bloggað um fréttina