Tekist á um samstarfið við FBI

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Ekki var gripið inn í samstarf íslenskra og bandarískra lögregluyfirvalda sumarið 2011 af hálfu innanríkisráðuneytisins. Málið snerist aðeins um þá réttarbeiðni sem lögð hafði verið fram af hálfu bandarísku alríkislögreglunnar (FBI). Þetta sagði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, í sérstakri umræðu sem fram fór á Alþingi í morgun en málshefjandi var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Þorgerður spurði Ögmund meðal annars að því hvort áður hefði verið gripið inn í slíkt samstarf við erlend lögregluyfirvöld af hálfu innanríkisráðuneytisins. Ráðherrann svaraði því ekki með öðrum hætti en að hafna því að gripið hefði verið inn í umrætt mál. Ögmundur sagði ennfremur aðspurður að samskiptin við erlend lögregluyfirvöld hefðu til þessa almennt verið góð en þar skipti máli að farið væri að íslenskum lögum og reglum.

Ráðherrann ítrekaði að sú réttarbeiðni sem FBI hefði lagt fram í júní 2011 hefði ekki náð yfir þá starfsemi sem fulltrúar alríkislögreglunnar hefðu viðhaft hér á landi. Samkvæmt íslenskum reglum þyrfti að leggja fram framhaldsréttarbeiðni ef rannsókn mála væri ekki í samræmi við upphaflega beiðni og það hefði átt við um í þessu tilfelli. Slík framhaldsréttarbeiðni hefði hins vegar ekki borist frá FBI.

Málið hefði upphaflega verið sagt snúast um yfirvofandi árás á tölvukerfi Stjórnarráðsins en síðan hafi komið á daginn að hún hafi snúist um sakamálarannsókn í Bandaríkjunum gegn uppljóstrunarvefnum Wikileaks. Ögmundur lagði ennfremur áherslu að aðkoma innanríkisráðuneytisins að slíkum málum væri tryggð í lögum. Í svari við fyrirspurn frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, hvort hann gæti fullyrt að árás á tölvukerfi Stjórnarráðsins tengdist ekki Wikileaks. Ögmundur sagðist ekki geta fullyrt það.

Stjórnarandstæðingar lögðu áherslu á að um eitt og sama mál hefði verið að ræða og vitnuðu í því sambandi til orða ríkissaksóknara sem hefði litið svo á. Þannig stönguðust orð innanríkisráðherra á við orð ríkissaksóknara eins og Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, benti á. Þorgerður Katrín ítrekaði að málið hefði allt farið fram samkvæmt lögum og reglum og spurði ennfremur hvort hún ætti frekar að trúa orðum hins sjálfstæða ákæruvalds eða pólitísks ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert