Heimsótti munaðarlausa í Kalkútta

Á myndinni með Ögmundi Jónassyni eru þeir Guðmundur Eiríksson sendiherra …
Á myndinni með Ögmundi Jónassyni eru þeir Guðmundur Eiríksson sendiherra og Hörður Svavarsson formaður Íslenskrar ættleiðingar

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra heimsótti í gær heimili fyrir munaðarlaus börn í Kalkútta á Indlandi. Frá þessu heimili eru langflest börn sem ættleidd hafa verið til Íslands frá Indlandi undanfarin ár.

Með innanríkisráðherra í för eru ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri og ráðgjafi ráðherra og fulltrúar Íslenskrar ættleiðingar. Þá er Guðmundur Eiríksson, sendiherra Íslands á Indlandi, með í för en sendiráðið hefur undirbúið heimsókn ráðherrans.

Í heimsókninni á barnaheimilið ræddi ráðherra við Anja Roy, forstöðukonu heimilisins, um samskiptin við Ísland og Íslenska ættleiðingu. Kom fram í máli þeirra beggja ánægja með þessi samskipti og einlægur vilji til að halda áfram góðum tengslum. Þá greindu fulltrúar félagsins frá því að ættleiddir einstaklingar leiti í auknum mæli eftir því að heimsækja Indland og afla upplýsinga um uppruna sinn og eru þær ferðir m.a. skipulagðar í samvinnu við barnaheimilið.

Á morgun og miðvikudag tekur sendinefndin þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um ættleiðingarmál í Dehli. Á myndinni með Ögmundi Jónassyni eru Lisa Kaneback, sænskur sjálfboðaliði sem ættleidd var frá Indlandi og Sarita Dubey.

mbl.is