Björn Valur í varaformanninn

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG.
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég þakka þeim fjölmörgu aðilum sem hafa hvatt mig til að gefa kost á mér í embætti varaformanns. Allar forsendur eru fyrir því að Vinstri græn nái góðum árangri í komandi kosningum og vil ég leggja mitt að mörkum til þess að svo verði,“ segir Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en hann tilkynnti í dag um framboð til varaformennsku í flokknum.

Landsfundur VG fer fram um næstu helgi en áður hafði Daníel Haukur Arnarsson, stjórnarmaður í Ungum Vinstri grænum, lýst yfir framboði til varaformanns flokksins. Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður, tilkynnti hins vegar í gær að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í embættið.

„Það eru mörg erfið verkefni framundan í íslensku samfélagi sem mikilvægt er að verði leyst á þeim grunni sem lagður hefur verið á síðustu fjórum árum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur það erindi í íslenskum stjórnmálum að efla og tryggja félagslega og efnahagslega velferð landsmanna allra og standa vörð um umhverfi og náttúru landsins. Ísland mun ekki ná því að vera það sjálfbæra velferðarsamfélag sem við viljum öll búa í, án Vinstri grænna,“ segir Björn Valur ennfremur í yfirlýsingu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert