Þá var farið á ball á mánudögum

Margt skemmtilegt ber fyrir augu þegar gömlum árgöngum Morgunblaðsins er flett. Gamlar bíó- og ballauglýsingar vekja áhuga og ekki ber á öðru en að skemmtanalíf landans hafi verið blómlegt árið 1957. Fáir eru betur til þess fallnir til að bera saman skemmtanamenninguna fyrr og nú en hinn síungi söngvari Ragnar Bjarnason.

Engum þurfti að leiðast að kvöldi laugardagsins 2. febrúar 1957. Kvikmyndahúsin sýndu kvikmyndir á borð við Villta æsku með Marlon Brando í aðalhlutverki og Fats Domino hristi sig og skók í Shake rattle and roll, sem samkvæmt auglýsingunni var fyrsta rokk and roll myndin sem sýnd var hérlendis.

Eitthvað sem kallaðist Jam Session var í Búðinni, í Austurbæjarbíói lék Orion kvartettinn og engir aðrir en Ragnar Bjarnason og KK sextettinn skemmtu í Iðnó. Ragnar hóf ferilinn 15 ára gamall og þá sem trommuleikari, en færði sig fljótlega að hljóðnemanum. 

Það var tjúttíbúgg

Þá var farið á böll alla daga vikunnar, öll dansgólf voru þéttskipuð mánudaga jafnt sem laugardaga og góðir dægurlagasöngvarar  voru eftirsóttir.

Ragnar segir að á þessum tíma hafi fólk klætt sig í sitt fínasta púss þegar það brá sér út á lífið og að miklu meira hafi verið dansað. „Það var tjúttíbúgg og svo skemmti fólk sér voða vel. Fólk klæddi sig upp og var í fínu fötunum, sunnudagafötunum og það var meira áfengi,“ segir Ragnar og segist sjá mikinn mun til hins betra á drykkjumenningu Íslendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert