„Meira en ég hefði þorað að vona“

Hanna Birna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Hanna Birna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Ómar Óskarsson

„Það er meira en ég hefði þorað að vona. Það er afgerandi kosning og ánægjuleg,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurð hvort það hefði komið henni á óvart að fá svo afgerandi kosningu í embættið, eða 95% gildra atkvæða.

Mbl.is ræddi við Hönnu Birnu skömmu eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.

Auðvitað gríðarlega þakklát

- Hvað er þér efst í huga?

„Ég er auðvitað gríðarlega þakklát fyrir þennan mikla stuðning og stolt af því. Svo hlakka ég mjög mikið til þess að takast á við verkefnin fram undan. Það er mér efst í huga núna.“ 

- Það hefur farið fram umræða um hvort þú byðir þig fram til formanns. Nú er ljóst að sú umræða er að baki. Hvaða þýðingu hefur það fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins?

„Ég var löngu búin að segja að ég ætlaði ekki aftur að gefa kost á mér á þessum fundi og ekki á þessu kjörtímabili. Þannig að ég hef staðið við það allan tímann. Ég held að þessi kosning í dag, bæði hvað varðar Bjarna Benediktsson og mig, sýni að forysta Sjálfstæðisflokksins nýtur stuðnings hér inni á þessum fundi og það er vel.“

- Hvernig meturðu möguleika Sjálfstæðisflokksins í kosningunum?

„Ég met þá góða vegna þess að málefnastaðan er sterk. Ég held að ályktanirnar sem við höfum samþykkt núna og að þær lausnir sem við munum bjóða fólki upp á séu eitthvað sem skipti fjölskyldurnar í landinu miklu máli. Ég held að fólk sjái það þegar það kynnir sér það að þar eru tækifæri sem er vert að grípa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert