Ekki meirihluti fyrir ESB næsta kjörtímabil

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundinum um helgina.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundinum um helgina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur að ekki muni myndast skýr meirihlutavilji fyrir því á meðal þjóðarinnar að stefna skuli að aðild að Evrópusambandinu. Landsfundur flokksins samþykkti ályktun um að hætti skuli viðræðunum og þær ekki teknar upp á ný nema með þjóðaratkvæði.

Þá segir í ályktun utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB.

Gengur það lengra en ályktun flokksins frá 2011 þar sem sagði að gera bæri hlé á viðræðum og þær ekki teknar upp á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá sagði í ályktuninni 2011, líkt og nú, að það þjónaði ekki hagsmunum Íslands að ganga í ESB.

Spurður hvort hann telji að ályktunin á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina muni styrkja vígstöðu flokksins í kosningabaráttunni framundan segir Bjarni ekki horft til skoðanakanna í þessu efni.

Málið snúist um pólitíska sannfæringu.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur komist að sinni niðurstöðu alveg óháð því sem hann telur líklegast til vinsælda. Sjálfstæðisfólk fylgir sinni sannfæringu. Þetta er stefna sem er trúverðug. Hún hefur verið hin sama í mjög langan tíma. Það er aðeins hert upp á henni en þetta er engin grundvallarbreyting.

Það skiptir öllu að flokkar sem vilja halda sig utan Evrópusambandsins skili því til kjósenda að þeir ætli ekki að eiga í viðræðum við Evrópusambandið nema að það byggi þá á skýrum meirihlutavilja þjóðarinnar. Og ég tel að það sé mjög langt frá því að það hafi verið tilfellið þetta kjörtímabil. Og ég tel að það muni ekki heldur gerast á næsta kjörtímabili.“

mbl.is